Íslandsmót skákfélaga – fyrri hluti (A-E sveitir)



Gauti Páll Jónsson skrifar

 

Taflfélag Reykjavíkur tefldi fram átta liðum þetta árið; A-E lið í deildunum fjórum og tveimur barna- og unglingaliðum í fjórðu deild. Í fyrstu deildinni eru A og B-liðin, en það varð niðurstaðan eftir að C-liðið komst upp í fyrstu deild meðan B-liðið fór niður í aðra deild í fyrra. A-sveitin er rétt eins og síðast örfáum vinningum á eftir hinni sterku sveit Hugins og B-sveitin er enn og aftur í fallbaráttunni. Nú mega TR-ingar ekki feta í fótspor Phil í Groundhog Day heldur þurfa að sjálfsögðu að vinna titilinn og halda B-liðinu uppi! Reyndar er fallbaráttan mjög jöfn og B-sveitin gæti alveg eins endað fyrir miðju ef vel gengur í seinni hlutanum. B-sveitarmenn náðu að kroppa nokkra punkta af A-liðinu og auk þess vannst sögulegur sigur á liði Hugins-B en þar voru Huginsmenn stigahærri á hverju einasta borði.

deildo1617_haust_(46)

1.deild. Bragi Þorfinnsson fékk 4,5v. í skákunum fimm.

Bragi Þorfinsson stóð sig best allra en hann var á fyrsta borði í A-liðinu. Bragi vann meðal annars Englendinginn og Íslandsvininn Gawain Jones úr Huginn en hann er með rúm 2600 stig. A-sveitin var að mestu eins og síðasta tímabil nema að Hannes Hlífar Stefánsson er farinn og Stefán Kristjánsson er kominn í félagið. En grunnurinn að liðinu er elíta íslenskra alþjóðlegra meistara í skák. Einnig tefldi núna skákstjórinn margrómaði Omar Salama. B-liðinu gekk frekar brösulega í fyrri hlutanum. Björgvin Víglundsson leiddi sveitina með miklum sóma á fyrsta borði en sveitin var skipuð yngri og eldri skákmönnum í bland. Þeir yngri voru komnir upp í B-liðið úr C-liðinu og einn liðsmaður kom alla leið upp úr D-liðinu! Vignir Vatnar Stefánsson stóð sig best með þrjá vinninga úr fimm skákum. Í þessum skrifuðu orðum er hann kominn í 2300 stig og bætist fljótlega í flottan hóp Fide-meistara í félaginu.

deildo1617_haust_(50)

2.deild. Jon Olav Fivelstad vann allar þrjár skákir sínar.

C-liðið er ekki í jafnmiklu stuði og síðast. Liðið er í fimmta sæti af átta og ætti að geta haldið sér frekar þægilega um miðja deild. Jon Olav Fivelstad stóð sig best en hann vann sínar þrjár skákir. Eggert Ísólfsson vann skákirnar tvær sem hann tefldi. Liðið var þéttskipað mönnum með milli 1800 og 2000 stig. Ég tel líklegast að C-liðið verði fyrir ofan miðju að móti loknu. Taflfélag Garðabæjar og B-sveit SA eru efst í annarri deildinni.

deildo1617_haust_(58)

3.deild. Agnar Darri Lárusson fékk 3v. í fjórum skákum.

Mér þykir alveg afskaplega vænt um D-liðið. Ungu mennirnir áttu hlut í að hífa það upp í þriðju deildina og núna eftir að þeir hafa yfirgefið liðið gæti það hugsanlega komist upp í þá aðra! Í D-liðinu var fólk á besta aldri með milli 1700 og 1900 stig auk nokkra unglinga sem komnir eru upp úr barnaliðinum í fjórðu deild. Það var Agnar Darri Lárusson sem stóð sig best en hann fékk þrjá vinninga af fjórum. Magnús Kristinsson fékk 2.5 vinning af þremur. D-liðið er í fimmta sæti með tvo sigra, eitt tap og eitt jafntefli en Skákfélag Selfoss og nágrennis er í fyrsta sæti deildarinnar.

deildo1617_haust_(24)

4.deild. Svava Þorsteinsdóttir fékk 2,5v. í þremur skákum.

E-liðið stóð sig mjög vel í fjórðu deildinni. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar og þarf bara að halda þeirri stöðu í seinni hlutanum og þá er það komið upp um deild. Í liðinu voru krakkar og fullorðnir í bland upp að 1700 skákstigum. Jón Einar Karlsson, Þorsteinn Magnússon og Svava Þorsteinsdóttir fengu 2.5 vinning, Jón Einar og Þorsteinn af fjórum skákum en Svava úr þremur. Árangur E-liðsins verður að teljast góður en nokkrum sinnum á seinustu árum hefur ekki náðst að manna það en núna er það með sterkari liðum í fjórðu deild.

Nánari upplýsingar um fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga 2016-2017 má nálgast á chess-results.