Ingvar Wu sigurvegari þriðja móts Bikarsyrpunnar



Ingvar Wu Skarphéðinsson varð efstur 24 keppenda á þriðja móti Bikarsyrpu TR sem fram fór um nýliðna helgi. Ingvar hlaut 6 vinninga úr skákunum sjö, hálfum vinningi meira en Benedikt Þórisson sem kom næstur í mark með 5,5 vinning. Jafnir í 3.-5. sæti með 5 vinninga urðu Óttar Örn Bergmann, Kristján Dagur Jónsson og Arnar Valsson þar sem Óttar hlaut 3. sætið á mótsstigum. Stúlknaverðlaun féllu í skaut Guðrúnar Fanneyjar Briem sem lauk keppni með 3,5 vinning.

Verðlaunahafarnir. Óttar, Ingvar, Benedikt og Guðrún.

Verðlaunahafarnir. Óttar, Ingvar, Benedikt og Guðrún.

Sem fyrr segir tóku 24 keppendur þátt í mótinu að þessu sinni sem telst prýðis þátttaka og úr varð gríðarlega spennandi mót þar sem úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu skák mótsins. Miklar sviptingar voru í toppbaráttunni í lokaumferðunum og eftir sigur Ingvars á Benedikt í þeirri næstsíðustu, sem og sigur Óttars á Kristjáni, var ljóst að Ingvar og Óttar hæfu leik í síðustu umferð efstir og jafnir. Í lokaumferðinni beið Óttar síðan lægri hlut gegn Arnari Valssyni á sama tíma og Ingvar lagði Adam Omarsson og sigurinn í mótinu því Ingvars.

Mikil einbeiting við skákborðin.

Mikil einbeiting við skákborðin.

Mótshald gekk vel enda þátttakendur flestir hverjir orðnir feykilega reyndir á hinu stóra skáksviði og orðnir vanir fyrirkomulagi Bikarsyrpunnar. Venju samkvæmt var styrkleikabilið breitt sem og aldursdreifingin en þess má til gamans geta að yngsti keppandi mótsins, Birkir Hallmundarson, er fæddur árið 2013 og því enn á leikskóla. Þá voru þrjár stúlkur á meðal þátttakenda en ásamt Guðrúnu voru það þær Karen Ólöf Gísladóttir og Emilía Embla Baldvinsdóttir Berglindardóttir sem er fædd 2012 og var áður á leikskólanum Laufásborg þar sem skákstarf hefur staðið í miklum blóma. Það er von mótshaldara að enn fleiri af yngstu kynslóðinni láti sjá sig í mótum Bikarsyrpunnar og einnig er ekki við öðru að búast en að fleiri stúlkur mæti til leiks í næstu mótum.

Spennan á "pallinum" er ávallt mikil.

Spennan á “pallinum” er ávallt mikil.

Forsvarsmenn Taflfélags Reykjavíkur þakka öllum keppendum ásamt forráðamönnum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá sem flesta aftur á næsta móti sem fer fram helgina 8.-10. mars. Öll úrslit má nálgast á Chess-Results.