Haustmót Taflfélags Reykjavíkur sem lauk nýverið var hið 80. í röðinni. Fyrsta mótið var haldið árið 1934 en á stríðsárunum féll mótið þrívegis niður. Haustmótið er meistaramót Taflfélags Reykjavíkur og hafa margir fræknir skákmenn hlotið sæmdarheitið Skákmeistari TR. Má þar helsta nefna -í engri sérstakri röð- stórmeistarana Friðrik Ólafsson, Margeir Pétursson, Guðmund Sigurjónsson, Jóhann Hjartarson, Jón Loft Árnason, Helga Ólafsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Þröst Þórhallsson og Helga Áss Grétarsson.
Sá skákmeistari sem oftast hefur borið titilinn Skákmeistari TR er Björn Þorsteinsson. Björn hlaut sæmdarheitið alls sex sinnum, fyrst árið 1960 og síðast árið 2001. Því liðu hvorki meira né minna en 41 ár á milli fyrsta titilsins og þess síðasta. Þykir það til marks um að afrek við skákborðið haldast í hendur við hugarfar, ekki aldur. Hinn sigursæli skákmeistari, Björn Þorsteinsson, lést þann 15.september síðastliðinn, 76 ára að aldri.
Að þessu sinni glímdu TR-ingarnir Þorvarður Fannar Ólafsson, Björgvin Víglundsson, Vignir Vatnar Stefánsson, Hrafn Loftsson og Gauti Páll Jónsson um titilinn. Hér verður stiklað á stóru um það markverðasta sem gerðist á Haustmóti TR árið 2016.
Sigurvegarinn
Einhverra hluta vegna hefur sá siður rutt sér til rúms á meðal skákmanna að taka litlar sem engar áhættur með eigin skákstig. Erfitt getur verið að fá stigahærri skákmenn til að taka þátt í skákmótum á borð við Haustmótið þar sem margir ungir skákmenn taka þátt og eru líklegir til að næla sér í jafntefli og vinninga gegn þeim stigahærri. Er landsliðseinvaldurinn, Ingvar Þór Jóhannesson, hóf tafl í Haustmótinu var hann langstigahæstur. Það sem meira var, Ingvar Þór var í A-flokki með nokkrum ungum og mjög efnilegum skákmönnum sem líklegir eru til afreka á næstu misserum. Jafnframt var pörunin honum óhagstæð því hann fékk flesta af stigahærri skákmönnum flokksins með svörtu. En af hverju var Ingvar Þór að leggja skákstig sín að veði með þessum hætti? Gefum landsliðseinvaldinum orðið: “Mig langaði bara til að tefla.” Löngunin til að tefla mátaði óttann við að tapa skákstigum. Er það til framúrskarandi fyrirmyndar og vonandi munu fleiri stigaháir skákmenn feta í fótspor landsliðseinvaldsins í framtíðinni.
Ingvar Þór hlaut 7 vinninga í skákunum níu og stóð að lokum uppi sem sigurvegari mótsins. Hann beitti kænsku í seinni hluta mótsins er hann samdi stutt jafntefli í tvígang með það fyrir augum að vinna í síðustu umferð með hvítu gegn næststigalægsta keppanda flokksins. Það gekk eftir. Ingvar Þór er vel að sigrinum kominn og aukaverðlaunin voru svo auðvitað þau að hann tapaði ekki einu einasta skákstigi, heldur hlaut að launum þrjú skákstig sem án efa verða vel nýtt á næsta skákmóti.
Stundin
Við erum uppi á palli í 8.umferð. Flestar skákir eru búnar. Spennan á toppi A-flokks er óbærileg, svo ekki sé minnst á baráttuna um sæmdarheitið Skákmeistari TR. Björgvin Víglundsson hefur leitað í öllum hornum taflborðsins að vinningsleið gegn Vigni Vatnari Stefánssyni eftir að hafa staðið til vinnings í nær tvær klukkustundir. Barnið verst með kjafti og klóm, enda mikið í húfi. Björgvin fullvissar sig um að engin vinningsleið sé eftir á borðinu og réttir fram hendina. Jafntefli. Þessi stund mun vafalítið varðveitast um ókomna tíð í huga Vignis Vatnars því þarna rauf hann 2300 stiga múrinn. Barnið er orðið Fidemeistari! Þó vissulega hafi þetta verið spurning um hvenær en ekki hvort FM titillinn næðist, þá er ætíð tilefni til veisluhalda þegar slíkur áfangi næst. Er við komum að mikilvægri vörðu á leið okkar að draumnum þá er mikilvægt að staldra við og finna hjá okkur bæði gleði og þakklæti yfir öllum litlu sigrunum og litlu ósigrunum sem áttu þátt í því að koma okkur á þann stað sem við erum á í dag. FM titillinn er aðeins ein af mörgum vörðum á vegferð Vignis Vatnars um ævintýri taflborðsins.
Áðurnefnt jafntefli í 8.umferð setti Vigni Vatnar í kjörstöðu í baráttunni um að verða næsti skákmeistari TR. Vignir Vatnar gerði jafntefli í síðustu umferðinni í hörkuskák gegn Jóni Trausta Harðarsyni og lauk Vignir Vatnar tafli með 6 vinninga, heilum vinningi fyrir ofan næsta TR-ing, Þorvarð Fannar Ólafsson. Vignir Vatnar Stefánsson er því Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2016.
Töframaðurinn
Aron Þór Mai vann B-flokkinn með yfirburðum og hlaut 7,5 vinning, einum og hálfum vinningi fyrir ofan næsta mann. Hann hefur því tryggt sér sæti í A-flokki Haustmótsins 2017. Í 2.umferð stýrði Aron Þór svörtu mönnunum til sigurs gegn Stephani Briem. Hann tefldi skákina listilega vel og einkenndist hún af þeirri hugmyndaauðgi og sókndirfsku sem einkennir skákstíl hans. Stöðumyndin sýnir augnablik þar sem Aron Þór hefur byggt upp stórhættulega sókn og getur í raun valið á milli tveggja skemmtilegra leiða; 28…Rh4+ og 28…Bxf4. Hann valdi fyrri kostinn sem gaf honum unnið tafl. Aron Þór tefldi einnig frábæra skák í síðustu umferð gegn bróður sínum, Alexander Oliver Mai, þar sem lagleg kóngssókn skilaði honum sigri. Þær voru fleiri sóknarskákirnar í Haustmótinu þar sem Töframaðurinn frá Laugalæk fórnaði mönnum fyrir mátsókn og því er vert að gefa skákum þessa sókndjarfa skákmanns sérstakan gaum í framtíðinni.
Vélin
Ólafur Evert mætti með sópinn í Faxafenið og hreinsaði upp Opna flokkinn. Hann vann allar níu skákir sínar og hafði upp úr því heil 178 skákstig, auk þess sem hann vann sér þátttökurétt í neðsta lokaða flokki Haustmótsins 2017. Vinningarnir níu voru ekki allir sannfærandi, en þegar Ólafur Evert stóð höllum fæti, líkt og gegn Sverri Hákonarsyni í 8.umferð, og útlit fyrir að draumurinn um fullt hús væri horfinn, þá lét hann ekki deigan síga heldur hélt uppteknum hætti við að skapa vandamál fyrir andstæðinga sína. Að halda einbeitingu í miðjum vonbrigðum er hugarfar sigurvegara. Að vinna flokk í Haustmótinu með fullu húsi er afrek útaf fyrir sig. Að gera það í tvígang er fáheyrt. Ólafur Evert vann D-flokk Haustmótsins árið 2014 einnig með fullu húsi. Það er vel við hæfi að Vél Haustmóts TR 2016 skuli hafa tvö full hús á ferilskránni.
Hástökkvararnir
Í A-flokki hækkaði Vignir Vatnar Stefánsson manna mest á stigum eða um alls 80 skákstig. Hástökkvari B-flokks varð Stephan Briem með 120 stiga hækkun. Stephan var stigalægstur í flokknum en gerði sér lítið fyrir og vann 5 skákir og endaði í 4.-5.sæti. Það þarf engum að koma á óvart að Ólafur Evert Úlfsson hækkaði manna mest á stigum í Opna flokknum sem og í öllu Haustmótinu en hann hækkaði um alls 178 skákstig. Þá hækkaði Benedikt Briem um 106 skákstig og Tómas Möller bætti 100 skákstigum í safnið sitt, en skákstigasafn þeirra félaga fer ört vaxandi þessi misserin.
Óvæntustu úrslitin
Hinn 9 ára gamli, Gunnar Erik Guðmundsson, tók sig til í síðustu umferð og vann Tryggva K. Þrastarson eftir langa og stranga baráttu í endatafli. Á þeim tveimur munar heilum 368 skákstigum. Gunnar Erik stóð til vinnings í lokin og varð ekki fótaskortur í úrvinnslunni þrátt fyrir 4 klukkustunda setu. Hann sýndi yfirvegun og einbeitingu í lokin sem er fágæt hjá svo ungum skákmanni. Þó hér sé talað um óvæntustu úrslitin þá er rétt að geta þess að einungis er horft til stigamunar teflenda. Úrslit sem þessi eru kannski ekki eins óvænt og ætla mætti því ungir skákmenn, líkt og Gunnar Erik, sem eru duglegir að æfa sig og tefla í mótum eru yfirleitt sterkari en stigin þeirra gefa til kynna. Það má því segja að það sé martröð margra fullorðinna skákmanna að lenda í klóm þessara ungu og efnilegu.
Einnig vert að nefna jafntefli Benedikts Briem gegn Herði Jónassyni en á þeim munar 439 skákstigum.
Jafnteflisvélin
Hefði farið fram skoðanakönnun fyrir mót þar sem spurt væri hver yrði mesta jafnteflisvél mótsins þá hefði varla nokkur giskað á þann sem gerði næstflest jafntefli. Benedikt Briem gerði heil sex jafntefli í opna flokknum. Það sem er sérstakt við það er að pilturinn sá er aðeins 10 ára gamall. Benedikt sýndi því stöðugleika sem er sjaldgæfur hjá svo ungum skákmönnum. Sá er gerði flest jafnteflin hefði þó líklega verið ofarlega á blaði í nefndri skoðanakönnun því hann er þekktur fyrir að vera harður í horn að taka og afar erfitt að brjóta varnir hans á bak aftur. Hrafn Loftsson gerði 7 jafntefli í mótinu og er því réttkjörinn Jafnteflisvél Haustmóts TR 2016.
Heppnissigurinn
Mesti heppnissigur Haustmótsins leit dagsins ljós í 8.umferð. Afleikurinn kom seint á vindasömu föstudagskvöldi eftir mikinn endataflsbarning í skák Gauta Páls Jónssonar og Olivers Arons Jóhannessonar. Oliver Aron var að reyna að vinna riddaraendatafl með svörtu en Gauti Páll varðist fimlega. Í 76.leik lék Oliver Aron hinum örlagaríka fingurbrjóti (sjá stöðumynd). Gauti Páll lék þá sigurleiknum -sem lesendur geta spreytt sig á að finna- og Oliver Aron sá sig knúinn til þess að gefast upp. Svo má alltaf rökræða um tilurð heppni, hvort hún sé verðskulduð eða óverðskulduð, og hvort hægt sé að hafa áhrif á eigin heppni. Þeim vangaveltum verður þó ekki gerð skil hér, enda kalla þær á annan og lengri pistil.
Verðlaunaafhendingin
Það var glatt á hjalla í félagsheimili TR þegar verðlaun voru afhent fyrir Haustmótið. Verðlaunahafar brugðu á leik og stilltu sér skemmtilega upp fyrir myndatökur. Mótshaldarar voru sérstaklega ánægðir með þessa vönduðu verðlaunahafa, einkum fyrir þær sakir að nær allir mættu til að taka við verðlaunum sínum.
Röð efstu keppenda flokkanna þriggja var á þessa leið:
A-flokkur: 1.Ingvar Þór 7 v. 2.Dagur R. 6,5 v. 3Vignir Vatnar 6 v.
B-flokkur: 1.Aron Þór 7,5 v. 2.Hörður Aron 6 v. 3.Veronika 5,5v.
Opinn flokkur: 1.Ólafur Evert 9 v. 2.Ingvar Egill 7,5 v. 3.Hörður J. 5,5 v.
Allir verðlaunahafar hlutu verðlaunagripi að launum fyrir frammistöðu sína. Athygli vakti að lágvaxnasti verðlaunahafinn fékk stærsta og þyngsta bikarinn; Farandbikarinn veglegi sem skákmeistari TR hlýtur til varðveislu í eitt ár lenti í fangi Vignis Vatnars. Að auki geta eftirtaldir skákmenn teflt endurgjaldslaust í Skákþingi Reykjavíkur árið 2017: Þorvarður Fannar Ólafsson, Jón Trausti Harðarson, Hörður Aron Hauksson, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, Ingvar Egill Vignisson og Hörður Jónasson.
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum keppendum fyrir þátttökuna í Haustmótinu og vonast til þess að sjá sem flesta aftur á einhverjum af þeim fjölmörgu viðburðum sem framundan eru hjá félaginu. Áhorfendur sem lögðu leið sína á mótsstað til þess að fylgjast með skákum Haustmótsins fá jafnframt bestu þakkir.
Nánari upplýsingar um Haustmótið má finna á chess-results. Allar skákir mótsins eru aðgengilegar hér (pgn): #1, #2, #3, #4, #5, #6, #7-8, #9.