Hvað gerist í Skákþinginu?



Nú þegar styttist í aðra umferð Skákþings Reykjavíkur er ekki úr vegi að reyna að spá örlítið fyrir um framvindu mála.  Metþátttaka er í mótinu og ljóst að mörg óvænt úrslit eiga eftir að líta dagsins ljós.  Hver vinnur?  Hver kemur mest á óvart?  Hver hækkar mest á stigum?  Hver vinnur óvæntasta sigurinn?  Mikill fjöldi ungra og upprennandi skákmanna gefur tilefni til að telja líklegt að einhverjir þeirra hækki mikið á stigum, þá á kostnað þeirra eldri og reyndari sem gjarnan óttast það að mæta litlum ofurhugum sem eru í mikilli uppsveiflu.

 

Stöðvar einhver þessa menn?  Jón Viktor, Einar Hjalti og Sigurbjörn

Ef litið er á toppbaráttuna er klárt að um afar spennandi baráttu verður að ræða þar sem alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2412) ásamt Fide meisturunum, Sigurbirni Björnssyni (2375), Einari Hjalta Jenssyni (2347) og Davíð Kjartanssyni (2336), skera sig nokkuð úr hópnum ef litið er til Elo stiga keppenda.  Næst koma Þorvarður F. Ólafsson (2256) og stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova (2245).

 

Það er ljóst að Jón Viktor mun fá harða keppni frá Sigurbirni og Einari Hjalta.  Báðir hafa þeir hækkað töluvert á stigum síðustu misseri og sérstaklega hefur Einar verið öflugur við skákborðið að undanförnu.  Má þar meðal annars nefna að hann sigraði í A-flokki Haustmótsins án þess að tapa skák en þar gerðu hann og Jón Viktor jafntefli.  Ekki má þó horfa fram hjá sigurvegaranum frá því fyrra og núverandi Skákmeistara Reykjavíkur, Davíð, þrátt fyrir að hann, líkt og Jón Viktor, hafi verið minna áberandi á mótum að undanförnu en það er á engan hallað þó spáð sé að baráttan muni standa á milli Jóns, Sigurbjörns og Einars.

 

Guð hjálpi þeim sem þarf að mæta þessum.  Jón Trausti, Dagur og Oliver

Ungu piltarnir, Oliver Aron Jóhannesson, Dagur Ragnarsson, Jón Trausti Harðarson og Mikael Jóhann Karlsson munu klárlega verða nálægt toppinum enda allir með meiri styrkleika en Elo stigin segja til um.  Oliver og Dagur sýndu það í Haustmótinu að þeir áttu klárlega erindi á meðal þeirra bestu í A-flokknum og Jón Trausti sigraði örugglega í B-flokknum.  Þá hafnaði Mikael í þriðja sæti í Skákþinginu 2013 þar sem hann var meðal annars fyrir ofan Einar Hjalta og Lenku og hækkaði mest allra á stigum.  Það þarf ekki að koma á óvart þó einhverjir þeirra muni kitla forystusauðina verulega í hælana.

 

Tveir efnilegir úr T.R.  Vignir Vatnar og Róbert Luu

Alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason hefur teflt flestar skákir allra Íslendinga og reynsla hans mun reynast andstæðingunum þung.  Sævar er með eindæmum duglegur að mæta á skákmót þar sem hann telur ekki eftir sér að mæta mun stigalægri skákmönnum sem öðlast dýrmæta reynslu þær klukkustundir sem þeir sitja gegnt meistaranum.  Sævar getur vel blandað sér í baráttuna og á góðum degi getur hann lagt alla sem þátt taka í Skákþinginu.

 

Ungir og efnilegir.  Dawid Kolka og Bjarki Arnaldarson

Svo mikið er af ungum og efnilegum börnum með í mótinu að erfitt er að benda á einhverja einstaka.  Þó verður að teljast afar líklegt að núverandi Íslandsmeistari barna og Íslandsmeistari 13 ára og yngri ásamt mörgum mörgum öðrum titlum, Vignir Vatnar Stefánsson, sé líklegur til afreka.  Vignir, sem verður 11 ára í febrúar hefur hækkað um tæplega 200 Elo stig síðastliðið og er eitt mesta efni sem hefur komið fram í áraraðir.  Vignir Vatnar er stigalægstur keppenda sem hafa 1800-2000 Elo stig en jafnframt með þeim líklegri til að næla sér í stigaverðlaun fyrir bestan árangur keppenda undir 2000 Elo stigum.

 

Þú þarft ekki að vera hár í loftinu til að vera góður í skák.

Adam Omarsson og Óskar Víkingur Davíðsson.

Vignir er meðlimur í Taflfélagi Reykjavíkur, líkt og margir efnilegir skákkrakkar en margir af þeim eru einmitt með í Skákþinginu.  Þar má meðal annarra nefna Gauta Pál Jónsson, Björn Hólm Birkisson, Veroniku Steinunni Magnúsdóttur, Bárð Örn Birkisson og Mykhaylo Kravchuk.  Þá eru fyrrverandi Íslandsmeistara barna, þau Nansý Davíðsdóttir (2012), Dawid Kolka (2011) og Dagur Andri Friðgeirsson (2006), einnig með í Skákþinginu og er sérlega ánægjulegt að sjá Dag Andra aftur við skákborðið eftir búsetu erlendis.  Yngstur allra er síðan hinn sex ára Adam Omarsson, sonur Lenku og Omars Salama, sem fær dýrmæta reynslu í mótinu en Adam er æstur í að vera með í mótum og verður súr þegar mamman fer bara.

 

Eins og áður segir er þetta einungis hluti af þeim glæsilega hóp yngstu kynslóðarinnar sem tekur þátt í Skákþinginu en eitt er klárt; þeir hinir eldri svitna verulega þegar þeir þurfa að eiga við einhverja úr þessum hópi.  Nú er bara að bíða og sjá hver niðurstaðan verður og þó svo að margir skákmenn séu ekki nefndir hér er mikið af reynslumiklum köppum í mótinu sem sannarlega geta blandað sér í toppbaráttuna og baráttuna um stigaverðlaun.

 

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Áhorfendur eru velkomnir, aðgangur er ókeypis og þeir sem ekki hafa prófað veitingarnar í Birnukaffi ættu að drífa í því hið snarasta.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1
  • Myndir
  • Mótstöflur SÞR
  • Skákmeistarar Reykjavíkur