Skáksalur Taflfélags Reykjavíkur lék á reiðiskjálfi í dag er 6.umferð Haustmóts félagsins var tefld. Að þessu sinni var hvorki um að kenna taktföstum bassatónum nágrannans né yfirstandandi þakviðgerðum. Titringurinn í skáksalnum var kominn til vegna þandra tauga keppenda sem margir hverjir glímdu við spennandi taflstöður þar sem fórnir og fléttur lágu í loftinu.
Í A-flokki beindust flestra augu að friðardúfunum tveimur, Birni Þorfinnssyni (2408) og Vigni Vatnari Stefánssyni (2270). Það lá ljóst fyrir á svip þeirra beggja við upphaf umferðarinnar að hvorugur ætlaði sér að halda áfram hinu friðsamlega flugi sem var uppi á teningnum í 5.umferð. Báðir mættu með alvæpni til leiks og létu ófriðlega á taflborðunum þar til andstæðingar þeirra lögðu niður vopn. Þeir Björn og Vignir hafa báðir 5 vinninga fyrir lokaumferðina. Þorvarður Fannar Ólafsson (2192) varð að játa sig sigraðan gegn Vigni, en Þorvarður er engu að síður í kjörstöðu að hreppa titilinn Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur. Þorvarður hefur 2,5 vinning, hálfum meira en Aron Þór Mai (2062).
Í B-flokki treysti Alexander Oliver Mai (1940) stöðu sína á toppnum með því að verða fyrstur til þess að leggja gamla brýnið, Eirík Björnsson (1958), að velli. Alexander hefur hlotið 5,5 vinninga í skákunum sex. Næstur á eftir honum kemur Stephan Briem (1967) með 5 vinninga, en Stephan stýrði hvítu mönnunum til sigurs í dag gegn Atla Antonssyni (1843).
Toppbarátta C-flokks var þrungin spennu. Svo mikil var spennan að gestir fylgdust ekki síður með C-flokknum en A-flokknum. Batel Goitom Haile (1511) fer með himinskautum þessa dagana eftir brösótta byrjun. Batel tapaði fyrstu tveimur skákum sínum í mótinu en hefur nú unnið fjórar skákir í röð! Batel gerði sér lítið fyrir í dag og vann stigahæsta keppanda flokksins, Arnar Milutin Heiðarsson (1749). Jón Eggert Hallsson (1695) nýtti sér tækifærið og tryggði stöðu sína á toppnum með sigri á Jóhanni Arnari Finnssyni (1711). Sá sigur var þó hvergi nærri öruggur því samkvæmt heimildamanni fréttaritara var Jón Eggert í hinum margfrægu köðlum um tíma. Jón Eggert hefur vinningsforskot á Arnar Milutin og Batel fyrir lokaumferðina.
Toppbarátta Opna flokksins skýrðist nokkuð því Joshua Davíðsson (1500) og Örn Alexandersson (1489) unnu sínar skákir. Þeir tróna á toppnum með 5 vinninga. Næstur með 4,5 vinning er Árni Ólafsson (1331). Árni mætir Erni í lokaumferðinni á meðan Joshua teflir við Ísak Orra Karlsson (1326). Fimm skákmenn hafa 4 vinninga og eygja von um að ná verðlaunasæti.
Lokaumferð Haustmótsins verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst hún klukkan 19:30. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að líta við í skáksalinn og fylgjast með spennandi lokaumferðinni. Birna tekur vel á móti öllum kaffiþyrstum og vöfflusvöngum.
Nánari upplýsingar um einstök úrslit og stöðuna í mótinu má finna á Chess-Results. Þar má einnig finna skákir mótsins sem Daði Ómarsson vinnur hörðum höndum að gera aðgengilegar skákáhugamönnum.