Sjöunda umferð á HM ungmenna í Durban, S-Afríku, fór fram í gær eftir frídag á miðvikudag. Vignir Vatnar Stefánsson stýrði svörtu mönnunum gegn S-Afríkumeistaranum, og þ.a.l. Fide meistaranum, Paul Gluckman en sá hefur 1702 Elo-stig. Tefld var Sikileyjarvörn og varð viðureignin aldrei spennandi því heimamaðurinn sá aldrei til sólar, varð snemma fyrir liðstapi og gafst upp skömmu síðar. Vignir hefur sýnt í mótinu að hann virðist kominn með afar góð tök á Sikileyjarvörninni.
Sigur Vignis var mikilvægur í ljósi þess að farið er að síga á seinni hluta mótsins og með sigri í áttundu umferð, sem fer fram í dag, á hann ágæta möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna á lokasprettinum. Vignir er sem stendur í 21.-28. sæti með 4,5 vinning og hefur í dag hvítt gegn búlgörskum skákmanni með 1912 Elo-stig. Umferð dagsins hefst venju samkvæmt kl. 14.
Staðan á toppnum í flokki (u12) Vignis Vatnars er nokkuð óvænt sé tekið mið af Elo-stigum keppenda því margir af þeim stigahæstu eru ekki á meðal þeirra efstu. Má þar nefna heimsmeistarann og Fide meistarann, hinn bandaríska Awonder Liang, sem tapaði sinni þriðju skák í gær.
Það stefnir í æsispennandi lokabaráttu en efstir með 6 vinninga eru Hvít-Rússinn Viachaslau Zarubitski og Pólverjinn Pawel Teclaf en sá er sem stendur með hvorki meira né minna en 114 Elo-stiga hækkun! Fimm skákmenn koma næstir með 5,5 vinning og þrettán fylgja í kjölfarið með 5 vinninga. Af þessum tuttugu efstu keppendum eru Bandaríkjamenn flestir eða fimm talsins.
Skák Vignis úr 7. umferð má nálgast hér.