Sjöunda umferð á HM ungmenna í Durban, S-Afríku, fór fram í gær eftir frídag á miðvikudag. Vignir Vatnar Stefánsson stýrði svörtu mönnunum gegn S-Afríkumeistaranum, og þ.a.l. Fide meistaranum, Paul Gluckman en sá hefur 1702 Elo-stig. Tefld var Sikileyjarvörn og varð viðureignin aldrei spennandi því heimamaðurinn sá aldrei til sólar, varð snemma fyrir liðstapi og gafst upp skömmu síðar. Vignir hefur sýnt í mótinu að hann virðist kominn með afar góð tök á Sikileyjarvörninni.
Sigur Vignis var mikilvægur í ljósi þess að farið er að síga á seinni hluta mótsins og með sigri í áttundu umferð, sem fer fram í dag, á hann ágæta möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna á lokasprettinum. Vignir er sem stendur í 21.-28. sæti með 4,5 vinning og hefur í dag hvítt gegn búlgörskum skákmanni með 1912 Elo-stig. Umferð dagsins hefst venju samkvæmt kl. 14.
Staðan á toppnum í flokki (u12) Vignis Vatnars er nokkuð óvænt sé tekið mið af Elo-stigum keppenda því margir af þeim stigahæstu eru ekki á meðal þeirra efstu. Má þar nefna heimsmeistarann og Fide meistarann, hinn bandaríska Awonder Liang, sem tapaði sinni þriðju skák í gær.
Það stefnir í æsispennandi lokabaráttu en efstir með 6 vinninga eru Hvít-Rússinn Viachaslau Zarubitski og Pólverjinn Pawel Teclaf en sá er sem stendur með hvorki meira né minna en 114 Elo-stiga hækkun! Fimm skákmenn koma næstir með 5,5 vinning og þrettán fylgja í kjölfarið með 5 vinninga. Af þessum tuttugu efstu keppendum eru Bandaríkjamenn flestir eða fimm talsins.
Skák Vignis úr 7. umferð má nálgast hér.
 Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins
Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins
				