Hjörvar Steinn Grétarsson (2358) er sigurvegari KORNAX mótsins 2010 – Skákþings Reykjavíkur og ver þar með titil sinn frá því í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn í 11 ár sem skákmaður ver titilinn en síðastur til þess var Jón Viktor Gunnarsson árið 1999.
Í áttundu og næstsíðustu umferð, sem fram fór í gær, sigraði Hjörvar Halldór Grétar Einarsson (2260) og hefur því 7,5 vinning, 1,5 vinningi meira en næstu menn þegar aðeins ein umferð er eftir. Jafnir í 2.-4. sæti með 6 vinninga eru Sigurbjörn Björnsson (2317), Ingvar Þór Jóhannesson (2330) og Björn Þorfinnsson (2383) en sex skákmenn koma næstir með 5,5 vinning.
Ekki var mikið um óvænt úrslit en þó sigraði Bjarni Jens Kristinsson (2033) Hrafn Loftsson (2256) og Árni Guðbjörnsson, stigalaus, lagði Hörð Garðarsson (1888).
Níunda og síðasta umferð fer fram á föstudagskvöld og hefst kl. 19.30.
- Heimasíða mótsins