
Sigurvegari. Hjörvar Steinn Grétarsson vann Haustmótið með 8v. í 9 skákum.
Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur lauk í dag eftir þriggja vikna törn. Stórmeistarinn stóðst prófraunina, Bolvíkingnum brást ekki bogalistinn og unga fólkið safnaði stigum í sarpinn.
Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson vann öruggan sigur og halaði hann inn 8 vinninga í skákunum níu. Næstur honum að vinningum var Bolvíkingurinn Magnús Pálmi Örnólfsson með 7 vinninga. Einar Hjalti Jensson hreppti 3.sætið með 6,5 vinning. Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur varð Björgvin Víglundsson með 6 vinninga.
Unga fólkið stóð sig með miklum sóma og sópaði til sín stigum. Joshua Davíðsson lauk tafli með 65 stig í plús, Árni Ólafsson nældi sér í 56 stig, Benedikt Þórisson vann 32 stig og Kristján Dagur Jónsson hreppti 20 stig. Sannarlega glæsileg framganga.

Efnilegir. Glókollarnir Benedikt Þórisson og Árni Ólafsson áttust við í hörku skák.
Hjörvar Steinn vann í dag Loft Baldvinsson og fór því taplaus í gegnum mótið. Þeir Magnús Pálmi og Þorvarður Fannar Ólafsson voru þeir einu sem náðu jafntefli gegn stórmeistaranum í mótinu. Magnús Pálmi lagði Björgvin Víglundsson í dag og tryggði sér þar með 2.sætið.
Mótinu verða gerð ítarleg skil á næstu dögum.
Hraðskákmót TR fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá verður jafnframt verðlaunaafhending fyrir Haustmótið. Taflið hefst kl.19:30.
Skákir mótsins voru slegnar inn af Daða Ómarssyni og er hægt að nálgast þær á Chess-Results.
Úrslit og staða: Chess-Results