Hjörvar Steinn sigraði á Stórmóti Árbæjarsafns og TR



20170820_161341

Kampakátir verðlaunahafar í blíðviðrinu á Árbæjarsafni.

Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson kom, sá og sigraði á Stórmóti Árbæjarsafns og TR sem fram fór í gær, sunnudag. Teflt var í blíðskaparveðri í fallegu umhverfi Árbæjarsafns, nánar tiltekið Kornhúsinu, sem byggt var á Vopnafirði um 1820 og gegndi m.a. hlutverki verslunarhúsnæðis og þá bjó þar Kristján Jónsson Fjallaskáld síðasta æviár sitt. Tefldar voru átta umferðir og lagði hinn öflugi stórmeistari, sem er á meðal sterkustu hraðskákmanna heims, alla sína andstæðinga og kom því efstur í mark, 1,5 vinningi á undan hinum unga Fide-meistara, Vigni Vatnari Stefánssyni, sem varð annar með 6,5 vinning. Jafnir í 3.-4. sæti með 6 vinninga urðu Fide-meistararnir Tómas Björnsson og Dagur Ragnarsson þar sem Tómas var sjónarmun á undan á mótsstigum.

20170820_153019

Hinn ungi Benedikt Þórisson var í miklu stuði og landaði 5 vinningum.

Mótahald fór vel fram og var keppendalistinn vel skipaður 30 keppendum á öllum aldri og breiðu styrkleikabili. Yngsta kynslóðin setti svip sinn á mótið og er greinilegt að þar er að koma upp fjöldinn allur af grjóthörðum hraðskákmönnum eftir mikla taflmennsku undanfarin misseri. Vertar Árbæjarsafns sáu til þess að enginn viðstaddra fór svangur eða þyrstur heim og kann TR þeim hinar bestu þakkir fyrir. Við þökkum keppendum fyrir þátttökuna og erum strax farin að hlakka til Stórmóts næsta árs!

20170820_145656