Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði Dag Ragnarsson í þriðju umferð Wow air mótsins-Vormóts Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór í gær. Hjörvar er efstur með fullt hús vinninga en næstir með 2,5 vinning eru stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson sem lagði kollega sinn, Stefán Kristjánsson, og Fide meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson sem knésetti Fide meistarann Guðmund Gíslason. Fjórir skákmenn fylgja á eftir með 2 vinninga. Stórmeistarinn Friðrik Ólafsson tefldi sína fyrstu skák í mótinu og gerði jafntefli við Sigurð Pál Steindórsson.
Í B flokki fer Magnús Pálmi Örnólfsson mikinn og leiðir með fullt hús vinninga eftir sigur á Sverri Erni Björnssyni en fimm keppendur koma næstir með 2 vinninga; Torfi Leósson, Kjartan Maack, Jón Trausti Harðarson og bræðurnir Arnaldur og Hrafn Loftssynir. Tveimur viðureignum var frestað sem þýðir að Mikael Jóhann Karlsson eða Vignir Vatnar Stefánsson geta blandað sér í hóp þeirra sem hafa 2 vinninga sigri annar í innbyrðis viðureign þeirra.
Páskahátíðin gengur nú senn í garð og því fer fjórða umferðin fram mánudaginn 28. apríl og hefst að venju kl. 19.30.
- Úrslit, staða og pörun: A flokkur B flokkur
- Skákir: 1 2 3 4 5 6 7
- Myndir
- Wow air mótið