Það virðist fátt geta komið í veg fyrir sigur stórmeistarans Hjörvars Steins Grétarssonar á WOW air móti Taflfélags Reykjavíkur en hann hefur nú 1,5 vinnings forskot þegar tveimur umferðum er ólokið. Í fimmtu umferð, sem fór fram í gær, sigraði Hjörvar alþjóðlega meistarann Dag Arngrímsson í 27 leikjum og var lokahnykkurinn sérlega glæsilegur. Hjörvar hefur fullt hús vinninga en næstur með 3,5 vinning er alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson sem lagði kollega sinn, Sævar Bjarnason. Hinum átta viðureignum umferðarinnar lauk með jafntefli sem er nokkuð sérstakt. Dagur er í hópi sex keppenda sem koma næstir með 3 vinninga.
Í B flokki leiðir Magnús P. Örnólfsson með 4,5 vinning en næstur með 3,5 vinning kemur Kjartan Maack. Magnús sigraði Hrafn Loftsson og Kjartan hafði betur gegn Torfa Leóssyni. Fimm keppendur koma næstir með 3 vinninga, þeirra á meðal hinn ellefu ára Vignir Vatnar Stefánsson sem enn hefur ekki tapað skák í mótinu.
Í sjöttu umferð, sem fer fram næstkomandi mánudagskvöld, mætast m.a. í A flokki Guðmundur og Hjörvar sem og stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson og Dagur. Í B flokki verður sömuleiðis toppslagur þegar Kjartan og Magnús mætast og þá munu bræðurnir Hrafn og Arnaldur Loftssynir berjast á banaspjótum.
- Úrslit, staða og pörun: A flokkur B flokkur
- Skákir: 1 2 3 4 5 6 7
- Myndir
- Wow air mótið