Henrik Danielsen genginn í T.R.



danielsen

Stórmeistarinn Henrik Danielsen (2510) er genginn í Taflfélag Reykjavíkur. Henrik þarf vart að kynna, en hann hefur verið einn sterkasti og virkasti meistari landsins í mörg ár. Árið 1991 varð hann alþjóðlegur meistari og stórmeistari fimm árum síðar 1996.

Henrik hefur í fjölmörg skipti keppt fyrir Íslands hönd síðan hann varð íslenskur ríkisborgari árið 2005 og árið 2009 varð hann íslandsmeistari í skák, en mótið var þá haldið í Bolungarvík. Henrik keppti einnig þrisvar sinnum á ólympíumótum fyrir hönd Danmerkur, eða árin 1992, 1994 og 1996.

Henrik hefur ritað mikið um skák, og er þar þekktastur fyrir “Ísbjarnar-kerfið” í Birds byrjuninni sem hann hefur oft beitt með góðum árangri.

Henrik mun styrkja starf Taflfélags Reykjavíkur mikið og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið!