Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson bar sigur úr býtum á Hraðskákmóti öðlinga sem fór fram í gærkveld en hann lauk keppni með fullt hús vinninga í skákunum sjö. Helgi er því Hraðskákmeistari öðlinga á jómfrúarári sínu sem háttvirtur öðlingur. Fide-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson koma annar í mark með 5,5 vinning en Ingvar er sömuleiðis á sínu fyrsta ári í Öðlingamótunum. Jafnir í 3.-5. sæti með 4,5 vinning urðu Bragi Halldórsson, Arnaldur Loftsson og Þór Valtýsson þar sem Bragi hlaut 3. sætið að loknum stigaútreikningi.
Að móti loknu fór einnig fram verðlaunaafhending fyrir Skákmót öðlinga sem lauk á dögunum. Þar urðu efstir og jafnir með 6 vinninga Björgvin Víglundsson og Ingvar Þór þar sem Björgvin varð ofar á stigum. Þorvarður F. Ólafsson varð þriðji með 5,5 vinning. Björgvin er aukinheldur Íslandsmeistari skákmanna 50 ára og eldri en Öðlingamótið var einnig Íslandsmót þess aldurshóps í ár.
- Chess-Results (Öðlingamót)
- Chess-Results (Hraðskákmót)
- Umfjöllun um Skákmót öðlinga