Háteigsskóli og Laugalækjarskóli Reykjavíkurmeistarar grunnskóla



Reykjavíkurmót grunnskólasveita fór fram dagana 4.-5.febrúar í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Mótið hefur um árabil verið samvinnuverkefni Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur. Teflt var í þremur flokkum; 1.-3. bekk, 4.-7. bekk og 8.-10. bekk. Háteigsskóli vann tvöfalt í yngri flokkunum og í flokki 8.-10. bekkjar hreppti Laugalækjarskóli gullið.

Það var fríður flokkur barna sem reið á vaðið í yngsta aldurshópnum. Þar átti sveit Háteigsskóla titil að verja frá árinu áður. Fljótlega varð ljóst að tveir skólar myndu berjast um efsta sætið að þessu sinni; Háteigsskóli og Rimaskóli. Skólarnir mættust í 3.umferð og þar hafði Háteigsskóli betur með minnsta mun 2,5-1,5. Þetta reyndist úrslitaviðureignin því báðir skólarnir unnu allar sínar viðureignir sem eftir voru með mesta mun (4-0). Háteigsskóli stóð því uppi sem sigurvegari með 25,5 vinning en Rimaskóli hlaut silfurverðlaun með 24,5 vinning. Þess má til gamans geta að þessi flokkur vannst á 22 vinningum í fyrra. Í þriðja sæti varð sveit Landakotsskóla með 19 vinninga. Þessir þrír skólar voru í nokkrum sérflokki. Rimaskóli var eini skólinn sem sendi stúlknasveit til leiks. Það sem meira var, í A-sveit skólans voru þrjár stúlkur. Á átta borðum Rimaskóla tefldu því sjö stúlkur fyrir hönd skólans í þessum yngsta aldursflokki.

20190204_190444

Sigursveit Háteigsskóla í flokki 1.-3.bekkjar ásamt liðsstjórum.

Í flokki 4.-7.bekkjar átti Rimaskóli titil að verja eftir mjög öruggan sigur árið áður. Flestir piltanna úr þeirri skáksveit hafa færst upp um flokk og því var nokkur endurnýjun hjá Rimaskóla í þessum aldursflokki. Háteigsskóli reyndist hafa langsterkustu skáksveitina að þessu sinni og sat skólinn í toppsætinu við leiðarlok, 5,5 vinningi á undan næstu sveit, með alls 23,5 vinning. Í 2.sæti kom sveit Landakotsskóla með 18 vinninga. Rimaskóli hreppti 3.sætið með 17,5 vinning. Líkt og í yngsta flokknum þá var Rimaskóli eini skólinn sem sendi stúlknasveit til leiks og hafnaði hún í 5.sæti af 14 liðum.

20190205_185926

Sigursveit Háteigsskóla í flokki 4.-7.bekkjar ásamt liðsstjóra sínum.

Elstu börn grunnskólanna, 8.-10.bekkur, tefldu sjö umferðir, allir við alla í einhverri mest spennandi keppni hin síðari ár. Ölduselsskóli átti titil að verja en því miður reyndist skólanum ekki unnt að senda sveit í mótið þetta árið. Fyrir lokaumferðina stóðu þrír skólar jafnir í efsta sæti með 20,5 vinning; Laugalækjarskóli, Rimaskóli og Hlíðaskóli. Laugalækjarskóli stóð þó best að vígi því hinir tveir skólarnir mættust í síðustu umferðinni. Er líða tók á lokaumferðina var spennan orðin verulega mikil því Laugalækjarskóli virtist vera í vandræðum á fyrsta borði þar sem Arnar Valsson úr Vættaskóla blés til sóknar gegn Alexander Oliver Mai. Á sama tíma var Rimaskóli komin í 3-0 gegn Hlíðaskóla og ein skák eftir. Alexander stóð af sér storminn og Laugalækjarskóli vann að lokum 4-0 sigur. Árni Ólafsson lagði svo Joshua Davíðsson á 1.borði og tryggði Hlíðaskóla einn vinning gegn Rimaskóla. Laugalækjarskóli vann því mótið með 24,5 vinning og Rimaskóli varð í 2.sæti með 23,5 vinning. Hlíðaskóli hreppti bronsið með 21,5 vinning. Það vakti sérstaka eftirtekt að Laugalækjarskóli mætti til leiks með þrjár skáksveitir; með öðrum orðum þá kom tæplega 38% keppnisliða frá Laugalækjarskóla! Mótshaldarar söknuðu þess þó að engin stúlknasveit skyldi tefla í efsta flokki en í fyrra var ein slík frá Rimaskóla.

20190205_220416

Sigursveit Laugalækjarskóla í flokki 8.-10.bekkjar.

Vel heppnuðu Reykjavíkurmóti grunnskólasveita er því lokið þetta árið. Við óskum sigurvegurunum til hamingju, börnunum öllum þökkum við einstaka samveru, liðsstjórar fá þakkir fyrir snurðulaust samstarf og foreldrum og öðrum gestum þökkum við fyrir heimsóknina. Síðast en ekki síst þökkum við Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar fyrir árangursríkt og uppbyggilegt samstarf. Við getum öll farið að hlakka til mótsins 2020!

Allar nánari upplýsingar um einstök úrslit og lokastöðu má nálgast á Chess-Results.