Haraldur sigurvegari U-2000 mótsins



IMG_7549Haraldur Baldursson hefur tryggt sér sigurinn í U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur en hann hefur fullt hús vinninga að loknum sex umferðum og 1,5 vinnings forskot á næstu keppendur nægir til sigurs þar sem aðeins ein umferð lifir af móti. Sigur Haraldar er afar öruggur en hann hélt forystu frá fyrstu mínútu og það var aðeins vegna frestaðrar skákar sem hann lét hana tímabundið af hendi. Toppsætið endurheimti hann snarlega og lét það ekki aftur frá sér.
IMG_7556
Fyrir lokaumferðina hefur Haraldur því 6 vinninga en næstir með 4,5 vinning koma Friðgeir Hólm og Tjörvi Schiöth og þá Gauti Páll Jónsson með 4 vinninga. Í umferð gærkveldsins lagði Haraldur Björn Hólm Birkisson í verulega spennandi viðureign þar sem Björn saumaði hressilega að Haraldi með hvítu mönnunum. Sá síðarnefndi varðist hinsvegar fimlega og Birni tókst ekki að finna lokahnykk sem varð til þess að eftir uppskipti komst Haraldur út í unnið hróksendatafl. Góður varnarsigur og fyrsta sætið í höfn.

Á öðru borði vann Friðgeir öruggan sigur á Arnaldi Bjarnasyni en nokkuð hefur borið á því að skákmenn þekkja ekki hinn hvassa skákstíl Friðgeirs sem ósjaldan verður til þess að andstæðingar hans “fara niður í logum”. Arnaldur hefur hinsvegar átt gott mót en pistlahöfund rekur ekki minni til þess að hafa áður orðið var við hann í kappskákmóti.
IMG_7553
Á þriðja borði vann Tjörvi góðan baráttusigur með svörtu gegn Sigurjóni Haraldssyni eftir að sigla endatafli með peð yfir örugglega í höfn. Ekki er hægt að tala um óvænt úrslit í umferðinni enda stigamunur keppenda oftar en ekki lítill sem enginn. Einkenndust margar viðureignirnar af mikilli baráttu og algengt var að allt “væri upp í loft” á reitunum 64 en þegar svo er lýkur orrustunum gjarnan með miklum flugeldasýningum þar sem menn falla hver um annan þveran og eftir stendur lítið annað en sviðin jörð.
IMG_7558
Þó svo að toppsætið sé frátekið er baráttan um næstu sæti hörð en úrslit ráðast næstkomandi miðvikudagskvöld þegar sjöunda og síðasta umferðin fer fram í húsnæði TR að Faxafeni 12. Klukkurnar verða ræstar á slaginu 19.30 en þá mætast á efstu borðum Tjörvi og Haraldur, Gauti Páll og Friðgeir sem og Björn Hólm og Halldór Atli Kristjánsson.

Áhorfendur velkomnir – heitt á könnunni og kruðerí með!