Haraldur sigurvegari U-2000 mótsins



IMG_9021

Sigurvegari U-2000 mótsins 2016 Haraldur Baldursson.

Hinn reynslumikli Haraldur Baldursson (1957) sigraði á U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur sem lauk síðastliðið miðvikudagskvöld. Haraldur hlaut 6,5 vinning í skákunum sjö, hálfum vinningi meira en Dawid Kolka (1907) sem varð annar. Þriðji með 5,5 vinning varð Hilmar Þorsteinsson (1800). Þetta er annað árið í röð sem Haraldur sigrar á U-2000 mótinu en þar að auki vann hann eitt af mótunum þegar þau voru haldin á fyrri hluta síðasta áratugs.

IMG_8783

Dawid Kolka tók silfrið.

Fjórir keppendur komu næstir með 5 vinninga hver, þeirra á meðal hinn þrettán ára Blikapiltur, Stephan Briem (1594), en Stephan hefur verið á fljúgandi siglingu að undanförnu og rokið upp stigalista Fide. Ekkert lát virðist á uppgangi kappans því á U-2000 mótinu landaði hann tæplega 70 Elo-stigum. Sannarlega vel gert en góður hluti keppenda á mótinu samanstóð af yngri kynslóðinni sem lét þá eldri og reyndari svitna verulega við skákborðin.

IMG_8836

Bronsið fór til Hilmars Þorsteinssonar.

Þrátt fyrir óvirkt loftræstikerfi og nokkuð sérstök loftgæði í salarkynnum TR á miðvikudagskvöld eftir mikla notkun húsnæðisins þann daginn var enginn skortur á töfrum skáklistarinnar þar sem keppendur úðuðu út leikjum og brellum á reitunum köflóttu. Heilastarfsemi viðstaddra virtist því ekki bíða tjón af völdum þessara aðstæðna, a.m.k. ekki til skamms tíma. Þegar blásið var til leiks höfðu Dawid Kolka (1907) og Kjartan Ingvarsson (1822) þegar lokið sinni orrustu hvar Dawid hafði betur með hvítu mönnunum. Á þeim tímapunkti var Dawid því einn efstur með 6 vinninga og var Haraldur sá eini sem gat náð honum að vinningum.

IMG_9010

Haraldur og Jon Olav eigast hér við í lokaumferðinni.

Ærið verkefni beið Haraldar sem hafði hvítt gegn hinum eitilharða Jon Olav Fivelstad (1918) sem kallar einfaldlega ekki allt ömmu sína, enda væri frekar skrýtið að gera það. Úr varð mjög svo spennandi viðureign sem einkenndist af stöðulegri baráttu þar sem leið lá út í endatafl þar sem hvor hafði riddara og jafnmörg peð á hvorum væng fyrir sig. Þegar tími keppenda var orðinn naumur henti Haraldur jafnteflisboði í loftið sem Jon Olav hafnaði snarlega þrátt fyrri að vera með innan við mínútu á klukkunni. Svo fór að neitunin varð honum að falli, ef svo má að orði komast, og eftir að hafa tekið áhættuna á að sækja sigurinn fékk Haraldur líkast til unna en þó vandteflda stöðu. Það var við hæfi að viðureign þeirra félaga var síðasta skák mótsins til að klárast en langleiðina gengið í miðnætti sigldi Haraldur sigrinum í höfn og skaust þar með upp í efsta sætið.

IMG_8841

Ingvar Egill tók aukaverðlaunin.

Á þriðja borði sigraði Hilmar hinn beinskeytta Friðgeir Hólm (1739) nokkuð örugglega en Friðgeir á það til að tefla alltof hratt og ekki vafamál að með smá bremsu kæmi hans rétti styrkleiki betur í ljós. Hafði hann reyndar á orði eftir mót að hann kynni ekki að tefla hægar en ekki var skákstjóri alveg tilbúinn í að taka undir þá fullyrðingu. Með sigrinum innsiglaði Hilmar gott mót þar sem hann tekur inn stigahækkun upp á tæp 50 Elo-stig. Vel gert hjá kauða sem hefur verið að sýna sig á skákmótum á nýjan leik eftir nokkurt hlé, sjálfsagt vegna náms eða annarrar vitleysu.

Eins og ávallt voru margar viðureignir spennandi og skemmtilegar og eitthvað af athyglisverðum úrslitum litu dagsins ljós. Má þar til dæmis nefna sigur Ingvars Egils Vignissonar (1554) með svörtu gegn Páli Þórssyni (1771) þar sem Páll tefldi líflega og fórnaði manni fyrir peð á e6 á þeim forsendum að svartur var ekki búinn að hrókfæra. Örlítið vantaði þó upp á sóknina og náði Ingvar að verjast áhlaupinu og snúa leiknum sér í hag. Gott mót hjá Ingvari Agli sem hlaut 4 vinninga og tryggði sér aukaverðlaun fyrir besta samanlagðan árangur í U-2000 mótinu og Skákþingi Garðabæjar.

IMG_8839

Atli Mar er einn af fjölmörgum efnilegum skákkrökkum sem þjóðin elur þessi misserin.

Hinn ungi Atli Mar Baldursson (1203) var óheppinn að vinna ekki Smára Arnarson í gríðarlega opinni og hættulegri stöðu þar sem einn rangur leikur gat hreinlega kostað skákina. Svo fór að Atli missteig sig en það er ljóst að þarna fer piltur sem er í mikilli framför. Úrslit kvöldsins voru þó án nokkurs vafa sigur Péturs Jóhannessonar á félaga sínum Björgvini Kristbergssyni með svörtu mönnunum. Skipti engum togum að Pétur blés til mikillar sóknar, vann mann og strax í kjölfarið drottningu Björgvins en þar lét Pétur ekki staðar numið heldur lagði upp vígalegt mátnet og gat Björgvin lítið gert og sá því sæng sína uppreidda (einmitt – ekki útbreidda). Ekki fór framhjá nokkrum viðstöddum að Björgvin var alls ekki sáttur við þessa niðurstöðu og eftir nokkur föður- og móðurleg orð skákstjóra og Birnu nokkurrar héldu þeir félagar saman út í nóttina.

IMG_9014

Rektor MH Lárus H. Bjarnason etur hér kappi við hinn unga Gunnar Erik Guðmundsson. Fjær tefla Þorsteinn Magnússon og Halldór Atli Kristjánsson. Sindri Snær Kristófersson fylgist með.

Ef litið er á mestu stigahækkanir keppenda sést að Dawid, Stephan, Ólafur Evert Úlfsson (1464), Arnar Milutin Heiðarsson (1358), Jóhann Bernhard Jóhannsson (1426), Benedikt Briem (1077) og Freyja Birkisdóttir (1186) hækkuðu öll um meira en 50 Elo-stig.

IMG_9015

Fjórir TR-ingar. Svava Þorsteinsdóttir og Kristján Dagur Jónsson eigast hér við ásamt félögunum Björgvini og Pétri.

Afar skemmtilegu og vel skipuðu U-2000 móti er því lokið í ár en tvöfallt fleiri keppendur tóku þátt í mótinu nú heldur en í fyrra. Börn, fullorðnir ásamt “nýjum” keppendum sýna vel að U-2000 mótið er sannarlega komið til að vera og má fullyrða hér að leikar verða endurteknir að ári liðnu. Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum fyrir þátttökuna og óskar verðlaunahöfum til hamingju.