Haraldur Haraldsson sigurvegari U-2000 mótsins



Verðlaunahafarnir; Sigurjón, Harladur og Páll.

Verðlaunahafarnir; Sigurjón, Haraldur og Páll.

Haraldur Haraldsson (1958) stóð uppi sem sigurvegari í U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur sem lauk sl. miðvikudagskvöld. Haraldur hlaut 6,5 vinning úr skákunum sjö, líkt og Sigurjón Haraldsson (1765), en var sjónarmun ofar á mótsstigum. Voru þeir félagar í nokkrum sérflokki allt mótið sem sést ágætlega á því að 1,5 vinningur var í næstu keppendur og þá hefur það ekki gerst áður að tveir keppendur komi jafnir í mark með 6,5 vinning í U-2000 mótunum.

Yngri kynslóðin er oft sýnd veiði en ekki gefin.

Yngri kynslóðin er oft sýnd veiði en ekki gefin.

Jafnir í 3.-4. sæti með 5 vinninga voru Páll Þórsson (1646) og Haraldur Baldursson (1984) þar sem sá fyrrnefndi hlaut 3. sætið á mótsstigum. Sjö keppendur fylgdu í humátt með 4,5 vinning, þeirra á meðal hinn ungi og efnilegi Óttar Örn Bergmann Sigfússon (1122) sem átti mjög gott mót og hækkar fyrir vikið um 100 Elo-stig!

Hart barist í U-2000 mótinu.

Hart barist í U-2000 mótinu.

Keppendur voru 39 talsins sem telst prýðis góð þátttaka og líkt og undanfarin ár var keppendalistinn góð blanda af reynslumiklum skákmönnum og fulltrúum yngri kynslóðarinnar. Skákstjórn var í öruggum höndum eins reynslumesta skákdómara þjóðarinnar, Ólafs S. Ásgrímssonar, og stóð eiginkona hans, Birna Halldórsdóttir, vaktina í Birnu-kaffi en hún er fyrir löngu orðin órjúfanlegur partur af mótahaldi félagsins. Forsvarsmenn félagsins vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til Birnu fyrir hennar óeigingjarna starf í þágu félagsins. Daði Ómarsson sá um innslátt skáka sem voru birtar fljótlega eftir hverja umferð en TR hefur undanfarin ár lagt mikinn metnað í að birta allar skákir úr sínum stærstu mótum.

Venju samkvæmt má finna öll úrslit ásamt skákum mótsins á Chess-Results.