Gunnar Erik sigraði á lokamóti Bikarsyrpu TRÖrn, Gunnar og Benedikt.

Örn, Gunnar og Benedikt.

Gunnar Erik Guðmundsson (1553) kom, sá og sigraði á fimmta og síðasta móti Bikarsyrpunnar þennan veturinn en teflt var í Skákhöll TR um nýliðna helgi. Gunnar hlaut 6 vinninga í skákunum sjö en í öðru sæti með 5,5 vinning var Benedikt Þórisson (1291) . Fimm keppendur komu jafnir í mark með 5 vinninga; Örn Alexandersson (1481), Árni Ólafsson (1275), Rayan Sharifa (1222), Tómas Möller (1169) og Óttar Örn Bergmann Sigfússon (1142) þar sem Örn hlaut þriðja sætið á mótsstigum (tiebreaks). Efst stúlkna var Anna Katarina Thoroddsen en hún landaði 4 vinningum.

Gunnar Erik hefur verið sigursæll í mótum Bikarsyrpunnar.

Gunnar Erik hefur verið sigursæll í mótum Bikarsyrpunnar.

Mót helgarinnar var fjölmennt og vel skipað og var styrkleikabreidd keppenda góð sem er mikilvægt í mótum Bikarsyrpunnar. Eins og svo oft varð úr æsispennandi barátta og réðust úrslit ekki fyrr en í lokaumferðinni seinnipart sunnudagsins. Fyrir hana voru Örn, Gunnar og Benedikt efstir og jafnir með 5 vinninga en Árni kom í humátt með 4,5 vinning ásamt Kristjáni Degi Jónssyni (1319). Liðsfélagarnir úr Breiðablik, Örn og Gunnar, mættust á efsta borði á meðan að liðsfélagarnir úr TR, Árni og Benedikt, mættust á öðru borði, en á þriðja borði hafði Kristján Dagur svart gegn Tómasi. Svo fór að Gunnar hafði sigur gegn Erni en á sama tíma gerðu Árni og Benedikt jafntefli í viðureign þar sem Benedikt var með vænlega sóknarstöðu en Árni varðist af hörku. Kristján Dagur tapaði manni gegn Tómasi sem landaði sigrinum í kjölfarið.

Anna Katarina hefur æft vel að undanförnu og hlaut súlknaverðlaunin.

Anna Katarina hefur æft vel að undanförnu og hlaut stúlknaverðlaunin.

Þar með var ljóst að Gunnar Erik sigraði í fjórða mótinu í röð og raunar fór hann taplaus í gegnum öll fimm mótin sem er eftirtektarverður árangur. Það þarf því ekki að koma á óvart að hann hlaut að auki verðlaun fyrir að vera með besta samanlagða árangur í mótum syrpunnar í vetur og fær því nafn sitt ritað á hinn eftirsótta farandbikar. Allar líkur eru á að Gunnar sé nú útskrifaður úr Bikarsyrpunni enda ekki langt í að kappinn rjúfi 1600-stiga múrinn.

Það var hart en drengilega barist á borðunum köflóttu.

Það var hart en drengilega barist á borðunum köflóttu.

Verðlaun fyrir samanlagðan árangur félaga í Taflfélagi Reykjavíkur hlutu Adam Omarsson, Benedikt Þórisson og Árni Ólafsson.

Við óskum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn og þökkum öllum þeim sem hafa verið með okkur í Bikarsyrpunni í vetur. Við hefjum aftur leik í haust og hlökkum til að hitta ykkur!