Blikapilturinn öflugi, Gunnar Erik Guðmundsson (1491), varð efstur keppenda á Bikarsyrpumóti helgarinnar en hann hlaut 6,5 vinning í skákunum sjö. Kristján Dagur Jónsson (1284) og Batel Goitom Haile (1421) komu jöfn í mark í 2.-3. sæti með 5,5 vinning en Kristján hlaut annað sætið eftir stigaútreikning. Batel hlaut að auki stúlknaverðlaun. Gestur Andri Brodman (0) og Adam Omarsson (1068) komu næstir með 5 vinninga en Gestur kom skemmtilega á óvart með góðri frammistöðu í sínu fyrsta Bikarsyrpumóti.
Sigur Gunnars var nokkuð öruggur en þetta var þriðja mótið í röð þar sem hann stendur uppi sem sigurvegari og ljóst er að ekki líður á löngu þar til hann fer yfir 1600 Elo-stig og kveður þar með Bikarsyrpuna eftir gott gengi í mótaröðinni.
Mótahald gekk afar vel og stóðu allir 29 keppendurnir sig með miklum sóma, hvort heldur sem er við skákborðin eða utan þeirra, og til marks um það má nefna að í langflestum tilfellum voru allir sestir við sín borð vel fyrir upphaf hverrar umferðar.
Undanfarin mót hafa falið í sér skemmtilega blöndu af börnum sem lengra eru komin í skáklistinni og þeim sem eru komin styttra á veg. Hugmyndin með Bikarsyrpu TR er einmitt ekki síst sú að börn, sem komin eru með fyrstu reynslu af skákkennslu- og þjálfun ásamt þátttöku í skólamótum og öðrum styttri mótum, fái að spreyta sig í kappskákmóti þar sem tímamörk eru lengri og skrifa þarf niður leikina í skákunum.
Hér má sjá öll úrslitin úr mótinu en fimmta og síðasta mót vetrarins fer fram helgina 6.-8. apríl. Við þökkum ykkur fyrir þátttökuna og hlökkum til að hitta ykkur aftur í apríl!