Það var fámennt en góðmennt á Úlfinum 2014 sem fram fór síðastliðið föstudagskvöld. Greinilegt er á þátttökunni að óttinn heltók marga sterka skákmenn, sem gera hefði mátt fyrirfram ráð fyrir að myndu sækja stíft að sigra Úlfinn. Fyrirfram var búist við öruggum sigri Þorsteins Þorsteinssonar á mótinu, en hann hélt til fjalla skömmu fyrir fyrstu umferð og hefur lítið til hans spurst síðan.
Formaður TR Björn Jónsson fór mikinn í byrjun móts og var með fullt hús (6 vinninga) og tveggja vinninga forskot í hálfleik. Virtist þá sem hann hafi orðið saddur á Úlfinum og fékk einungis 1/2 vinninga seinni hlutann.
Guðni Stefán Pétursson hélt hinsvegar haus út mótið og sigraði með 8 vinninga af 12 mögulegum. Jafnir honum að vinningum en undirmálsmenn við bindisbrots útreikninga urðu síðan Jóhann Ingvason og Kristján Örn Tony Elíasson. Máttu titilhafarnir Sigurbjörn Björnsson og Arnar Erwin Gunnarsson sætta sig við að feta í fótspor þessa fríða hóps forystusauða.
Guðni Stefán er vel að sigrinum kominn og sæmdarheitinu Úlfurinn 2014. Fer hann í suðupott með Karlöndinni, Móranum og fleiri sigurvegurum skemmtikvöldanna sem munu leiða saman hesta sína á skemmtikvöldi allra skemmtikvölda í vor.
Næsta skemmtikvöld mun fara fram í lok Janúar 2015