Guðmundur teflir í Andorra



Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson sigraði í fyrstu umferð í opnu alþjóðlegu móti sem fer fram í Andorra 20.-28. júlí.  Andstæðingur Guðmundar var fremur stigalár með tæplega 2000 stig en í dag mætir hann frönskum skákmanni með 2157 stig.  178 keppendur frá tuttugu löndum taka þátt í mótinu, þeirra á meðal 16 stórmeistarar og 13 alþjóðlegir meistarar.  Tefldar eru níu umferðir.  Á heimasíðu mótsins og Chess-Results má finna nánari upplýsingar ásamt öllum úrslitum.

 

Áður hafði Guðmundur tekið þátt í opnu alþjóðlegu móti í Benasque þar sem hann hlaut 7 vinninga í tíu umferðum og hafnaði í 20.-44. sæti af ríflega 400 keppendum.  Árangur Guðmundar samsvarar 2416 stigum og hækkar hann lítillega á stigum.  Hann vann sjö viðureignir og tapaði aðeins þremur, öllum gegn stórmeisturum.  Á Chess-Results má finna heildarúrslit ásamt örlitlum hluta skákanna úr mótinu en það verður að segjast að Spánverjarnir standa sig illa í að gera skákirnar aðgengilegar á vefnum.