Guðmundur Skákskólameistari 2007Einvígi Guðmundar Kjartansson og Hjörvars Steins Grétarssonar var að ljúka með sigri Guðmundar.

Í fyrri atskákinni vann Hjörvar með hvítt, eftir að hafa unnið peð í miðtaflinu og síðan bætt stöðu sína jafnt og þétt. Í þeirri seinni náði Guðmundur yfirburðastöðu og vann skiptamun. Hann innbyrti síðan sigurinn í tímahrakinu.

Í fyrri hraðskákinni var nokkuð jafnræði framan af miðtaflinu, en þegar tíminn styttist fóru flugeldarnir á loft og Guðmundur stóð uppi sem sigurvegari.

Í seinni hraðskákinni hafði Hjörvar dálítið frumkvæði og náði að knýja fram sigur. Reyndar var svolítið erfitt að fylgjast með skákinni á netinu.

Allar skákirnar höfðu nú unnist á hvítt. Og í bráðabana dróst Hjörvar með hvítt í fyrstu og e.t.v. einu skákinni. En svo fór ekki. Hjörvar var peði yfir í endatafli, með hrók og fjögur peð gegn hróki og þremur peðum, en öll peðin voru á sama væng og völduð. En Hjörvar átti mun minni tíma eftir og hefði Guðmundur getað haldið áfram og teflt upp á tímann, en sættist á jafntefli.

Þá tók við önnur bráðabanaskákin. Að þessu sinni fékk Guðmundur hvítu mennina. Þegar upp var staðið, eftir harða baráttu, virtist Hjörvar vera að taka sigurinn, en hann átti nauman tíma og féll.

Guðmundur Kjartansson úr T.R. er því Meistari Skákskóla Íslands 2007. Hjörvar má þó vel við una. Hann stóð sig vel, en að lokum var það reynslan og harkan, sem skilaði Guðmundi sigri.

En T.R. vill óska sínum manni, Guðmundi, til hamingju með árangurinn og þakka Hjörvari Steini fyrir skemmtilega taflmennsku og harða baráttu.