Guðmundur sigraði í 8. umferð og nálgast stórmeistaraáfanga



Fide meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2356), fer hamförum á opna skoska meistaramótinu sem fram fer þessa dagana.  Í áttundu umferð, sem fram fór í dag, sigraði hann þriðja stórmeistarann á mótinu og að þessu sinn var það hinn skoski, Colin McNab (2474).  Guðmundur hefur að auki gert jafntefli við tvo aðra stórmeistara.

Með sigrinum í dag skaust Guðmundur upp í 4.-5. sæti með 6 vinninga og verður í toppbaráttunni fyrir níundu og síðstu umferð sem fram fer á morgun en þá mætir hann enska stórmeistaranum, Mark Hebden (2468).  Allar líkur eru á að jafntefli á morgun tryggi Guðmundi sinn fyrsta stórmeistaraáfanga.

Aron Ingi Óskarsson (1876) gerði jafntefli við Skotann, James S. Macrae (1765), og er í 78.-84. sæti með 2,5 vinning.  Á morgun teflir Aron við enn einn Skotann, Andrew McHarg (1586).

Efstir með 6,5 vinning eru indversku stórmeistararnir, S. Arun Prasad (2556) og Magesh Chandran Panchanath (2493) ásamt hinum enska, Hebden, en athyglisvert er að Indverjarnir tveir töpuðu báðir fyrir Guðmundi.

Rétt er að ítreka að skák Guðmundar í níundu umferð sem fram fer á morgun kl. 13 verður í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.

Heimasíða mótsins

Skákirnar í beinni