Það var mikið um dýrðir í lokaumferðunum þremur í Haustmóti TR. Farið verður yfir óvænt úrslit hverrar umferðar í hverjum flokki, mestu stigahækkanir, ýmsa áhugaverða leiki og margt annað.
Í A-flokknum voru öll úrslit eftir bókinni í fimmtu umferð, en í mikilvægri skák Guðmundar Kjartanssonar og Hjörvars Steins Grétarssonar varð niðurstaðan jafntefli eftir spennandi skák. Í sjöttu umferð skildust Hjörvar og Guðmundur í fyrsta sinn að, en Alexander Oliver Mai tókst að halda jöfnu gegn stórmeistaranum Hjörvari. Guðmundur vann hins vegar stórmeistarann Braga Þorfinsson og varð því einn efstur fyrir lokaumferðina, hálfum vinningi fyrir ofan Hjörvar. Næstir á eftir þeim Hjörvari og Guðmundi voru Bragi og Vignir Vatnar Stefánsson með þrjá vinninga af sex. Í lokaumferðinni fékk Hjörvar hvítt gegn Daða Ómarssyni, og þurfti þá sannarlega á sigri að halda eftir jafntefli 6. umferðar. Skákinni lauk með sigri Hjörvars sem setti Guðmund undir talsverða pressu, að tapa ekki sinni skák. Gumundur fékk að glíma við Baldur Kristinsson með svörtu mönnunum. Vignir fékk svart á Stefán Bergsson, og með sigri í þeirr skák náði hann að tryggja sér þriðja sætið í mótinu. Hinn ungi Alexander fékk sinn annan stórmeistara í röð, í þetta sinn Braga Þorfinnsson, og stefndi að öllum líkindum á önnur góð úrslit. Það fór jú þannig að Alexander gerði aftur jafntefli við stórmeistara. Minnir þetta örlítið á þegar Benóný Benediktsson gerði jafntefli við báða Rússana á minningarmóti Guðjóns M. Sigurðssonar 1956, ekki leiðum að líkjast! En aftur að Guðmundi; hann vann Baldur! Og því er alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson bæði sigurvegari mótsins og skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2019! Guðmundur hlaut að lokum 6.5 vinning af sjö og hækkar um 18 stig. Það munar sannarlega um þessi 18 stig fyrir Guðmund sem stefnir hraðbyri að 2500 stiga múrnum og þar með stórmeistaratitili. Hjörvar varð annar með sex vinninga og þriðji var Vignir Vatnar með fjóra vinninga. Lokastaðan
B-flokkurinn fékk að glíma við hið leiðindavandamál að þónokkrum skákum lauk með vinningum án taflmennsku. Í sjö umferða móti getur þetta skekkt úrslit mótsins. Þetta var að hluta til vegna þess að Íslandsmót öldunga og Haustmótið fóru skárust á í nokkrum umferðum en það verður komið í veg fyrir að slíkt gerist aftur að ári, og í framtíðinni. Í Akureyrarslag fimmtu umferðar vann Símon Þórhallsson Mikael Jóhann Karlsson og Aron Þór vann Gauta Pál, með örlítilli aðstoð frá þeim síðarnefnda. Þeir Símon og Aron áttu báðir eftir að vinna sínar skákir í 6. umferð, Símon gegn Haraldi Harladssyni og Aron í ótefldri skák gegn Sævari sem þá tefldi í öldungamótinu. Þeir Aron og Símon mættust í lokaumferðinni. Eftir lokaumferðina voru þau Lenka og Guðni Stefán bæði með 5 vinninga. Það var því ljóst að annað hvort Aron eða Símon myndi ná þeim að vinningum eftir þeirra skák í lokaumferðinni og sigra þar með B-flokkinn og tryggja sér sæti í A-flokki að ári liðnu. Svo fór að Aron vann skákina og tryggði sér afar öruggt efsta sæti með sex vinninga af sjö mögulegum. Í leiðinni tryggði Aron sér sæti í A-flokki að ári, eins og bróðir hans gerði í fyrra. Guðni og Lenka hlutu fimm vinninga og Símon 4.5. Lokastaðan
Í skákum C-flokks í fimmtu og sjöttu umferð lauk alls fimm af átta með jafntefli. Í fimmtu umferð vann Aasef Alashtar Benedikt Briem og í þeirri sjöttu vann Arnar Heiðarsson Jóhann Arnar og Helgi Pétur vann Gunnar Erik. Fyrir síðustu umferð varð Aasef efstur með fimm vinninga, Arnar með fjóra í öðru sæti og í þriðja sæti Pétur Pálmi með 3.5 vinning. Lokaumferðin í C-flokknum bauð upp á sérdeilis spennandi viðureign því þeir Aasef og Arnar mættust einmitt í henni í hreinni úrslitaskák, en Arnar þyrfti að vinna skákina til að verða jafn Aasef. Það fór svo að Arnar sigraði skákina og skaust fyrir ofan Aasef á stigum. Þar með hefur Arnar tryggt sér sæti í B-flokki haustmótsins að ári liðnu. Aasef hafði verið með pálmann í höndunum eða fataðist svo flugið og fékk hálfan vinning úr síðustu umferðunum tveimur. Á eftir þeim Arnari og Aasef kom Pétur Pálmi Harðarson með 4.5 vinning og Jóhann Ragnarsson hlaut fjóra vinninga. Spennandi og skemmtilegur flokkur þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu umferð. Lokastaðan
Þorsteinn Magnússon sigraði opna flokkinn með sex vinninga af sjö umferðum en hann tók sig til og vann allar þrjár síðustu skákirnar. Þar munaði mikið um sigurskákina gegn Ingvari Wu sem stóð sig ótrúlega vel í mótinu en þeir mættust í síðustu umferð. Ingvar og Jón Úlfljótsson voru í öðru sæti með fimm vinninga og þeir Héðinn Briem og Benedikt Stefánsson hlutu 4.5 vinning. Fyrir frammistöðu sína hækkar Þorsteinn um 41 elo-stig, en hann var fyrir mótið með 1527 stig en frammistaða hans var upp á 1873 stig. 25 skákmenn tóku þátt í flokknum, þar af fjölmargir skákkrakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref í kappskák, og ná mörg hver að næla í fyrsta sinn í vinninga gegn reyndari og eldri andstæðingum. Lokastaðan
Jafntefliskóngarnir
Jafntefliskóngar mótsins voru nokkrir. Guðni Stefán Pétursson var með fjögur jafntefli í B-flokknum. Hann var auk þess taplaus í mótinu! Nákvæmlega sama plani fylgdi Arnar Heiðarsson í C-flokknum, en hann gerði fjögur jafntefli og vann þrjár skákir. Greinahöfundur fer að sjá eftir þessum skrifum, það eru allt of margir jafntefliskóngar! Í opna flokknum var Jón Úlfljótsson með fjögur jafntefli og líka Árni Ólafsson, en Árni hækkar um heil 64 skákstig eftir öll þessi jafntefli!
Stigastökkvararnir
Stigahástökkvari mótsins var Ingvar Wu Skarphéðinsson (1322) í opna flokknum, en hann hækkaði um heil 122 stig! Fleiri hækkuðu duglega á stigum, Arnar Heiðarsson (1756), sigurvegari C-flokksins hækkaði til að mynda um 95 stig. Aron Þór Mai (2063), sem vann B-flokkinn örugglega, hækkaði um 90 stig, og bróðir hans Alexander Oliver Mai (2005) hækkaði um 80 stig eftir frumraun sína í A-flokki haustmótsins. Haustmótið er greinilega góður vetvangur fyrir miklar stigahækkanir!
Taktíska staðan
Hér lék Guðmundur Df3 gegn Vigni Vatnari. Eftir að Vignir tók á e5 er steindrepið á e6 og allt er “í háaloft”. Hraustlega teflt.
Gegnumbrotið
Guðmundur gegn Braga. Hvítur er nýbúinn að leika g4, og við honum er ekkert svar.
Stöðulegu mistökin
Haraldur Harladsson gegn Gauta Páli. Hér lék Gauti f6 og í næsta leik e5 og lenti í vandræðum í framhaldinu. Betra var Rg7! og eftir g4-e5! Peðinu fórnað til baka en riddarinn verður góður á e6.
Minnt á Hraðskákmót TR
Hraðskákmót TR fer fram næsta miðvikudagskvöld, klukkan 19:30 í húsnæði TR, Faxafeni 12. Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir Haustmótið. Allir skákmenn eru hvattir til að mæta til leiks! Auglýsing mótsins
Að lokum óskar Taflfélag Reyjavíkur sigurvegurunum til hamingju og þáttakendum fyrir vel heppnað mót!