Guðmundur í 16.-23. sæti á Hastings mótinu



Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson heldur áfram öflugri taflmennsku og lauk í dag þátttöku sinni á hinu fornfræga Hastings skákmóti í Englandi en mótið fer fram í kringum áramót ár hvert.  Mótið var fyrst haldið árin 1920 og 1921 og hafa margir af fyrrum heimsmeisturum verið meðal þátttakenda.

 

Guðmundur átti ágætt mót og hlaut 6 vinninga í tíu skákum, vann fjórar skákir, gerði fjögur jafntefli og tapaði tveimur skákum.  Tveir sigranna komu gegn stórmeisturum og sömuleiðis öll jafnteflin.  Árangur Guðmundar samsvarar 2500 skákstigum og hækkar hann um 14 stig og hefur þá hækkað um rúmlega 100 stig á rúmu ári.  Líkast til slær Guðmundur stigamet sitt á næsta stigalista en hæst hefur hann farið í 2413 stig.

 

Guðmundur, sem tefldi vel yfir 100 skákir á síðasta ári, heldur ótrauður áfram og fer  nú til Sevilla þar sem hann tekur þátt í alþjóðlegu móti sem hefst 11. janúar.

  • Heimasíða Hastings mótsins