Gróskumikið starf T.R. á komandi vetriMótahald Taflfélags Reykjavíkur á 115. starfsári þess hófst með pomp og prakt á sunnudag þegar fimm skákmenn deildu efsta sætinu á fjölmennu Stórmóti félagsins í samstarfi við Árbæjarsafn. Á mánudag fór síðan fram hið árlega Borgarskákmót sem Taflfélag Reykjavíkur stóð að í samstarfi við hið nýja skákfélag Hugin. 61 keppandi tók þátt og deildu alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Ólafur B. Þórsson efsta sætinu.

Taflfélag Reykjavíkur stendur fyrir vel á annan tug skákviðburða á komandi haustvertíð og eru þá ekki meðtaldar hinar fjölmörgu barna- og unglingaæfingar ásamt fimmtudagsmótunum sem hefjast nú aftur eftir nokkurt hlé. Af nægu er að taka en stærsti viðburðurinn verður án efa áttatíu ára afmælismót Haustmóts félagsins sem hefst um miðjan september. Þá má nefna nýjan byrjendaflokk á barnaæfingunum, bikarsyrpu ætlaða yngri kynslóðinni og framhald á skemmtikvöldunum sem vöktu mikla lukku á síðastliðnu starfsári.

Þeim sem hafa gaman að skáklistinni, hvort sem er sem iðkendur eða áhorfendur, er bent á að fylgjast vel með starfi félagsins í vetur því þar verður sannarlega eitthvað í boði fyrir alla. Hægt er að sækja starfsáætlun félagsins með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Við hlökkum til að vera með ykkur og eiga saman skemmtilegt skáktímabil!

Starfsáætlun Taflfélags Reykjavíkur haustið 2014 (pdf).