Líkt og í fyrstu umferð urðu mjög óvænt úrslit í annarri umferð KORNAX mótsins sem fram fór í gær. TR-ingurinn, Grímur Björn Kristinsson (1995), gerði sér lítið fyrir og lagði stórmeistarann, Lenku Ptacnikovu (2317), með svörtu mönnunum. Grímur, sem tefldi á sínu fyrsta kappskákmóti þegar hann sigraði með yfirburðum í opna flokki Haustmóts T.R. síðastliðið haust, hafði í fullu tré við Lenku alla skákina og nokkuð betri stöðu stóran hluta hennar. Miklar sviptingar urðu í liðskipan þegar á leið og var Lenka komin með betri stöðu um tíma en lokin tefldi hún ekki vel og glæsilegur sigur Gríms var í höfn.
Önnur úrslit voru nokkuð eftir bókinni en hart var barist á efstu borðum þar sem stigaæsti keppandi mótsins og sigurvegari síðustu tveggja ára, Hjörvar Steinn Grétarsson (2460), mátti hafa sig allan við til að sigra Smára Rafn Teitsson (2074). Staðan var afar jafnteflisleg þegar í endatafl var komið en Hjörvar sýndi hvað 400 Elo-stiga munur þýðir í skák þegar hann kreisti fram öruggan sigur að lokum með fantagóðri úrvinnslu.
Hinn sókndjarfi alþjóðlegi meistari, Björn Þorfinnsson (2430), atti kappi við ekki síður sókndjarfan skákmann, Bjarna Jens Kristinsson (2042), sem hefur verið á hraðri uppleið að undanförnu. Líkt og við var að búast varð úr hin mesta skemmtun fljótlega upp úr byrjuninni þegar Björn bauð upp á drottningarfórn fyrir nokkurt lið í staðinn. Fórnina þáði Bjarni ekki og fékk í kjölfarið lakari stöðu en líkast til hefði hann staðið eilítið betur hefði hann þegið kellu og farið öðruvísi í uppskiptin. Björn sigraði því að lokum nokkuð örugglega.
Að sama skapi bauð skák varaformanns T.R., Eiríks K. Björnssonar (2063), og Fide meistarans, Ingvars Þórs Jóhannessonar (2350), upp á skemmtilega og nokkuð furðulega stöðu eftir byrjunarleikina. Ingvar fórnaði skiptamun fyrir virkari stöðu og að auki var drottning Eiríks hálf utangátta um tíma. Ingvar vann úr stöðunni eins og honum er einum lagið og hafði að lokum góðan baráttusigur.
Fide meistarinn, Snorri G. Bergsson (2323), vann síðan mjög öruggan sigur á Þór Valtýssyni (2031) í skák þar sem Snorri hafði betra tafl allan tímann.
Páll Andrason (1720) fylgdi eftir góðum sigri í fyrstu umferðinni og gerði nú jafntefli við Jóhann H. Ragnarsson (2075). Ekki myndi koma á óvart að Páll yrði stigagróðakóngur mótsins enda verið á mikilli siglingu að undanförnu.
Þriðja umferð fer fram á föstudagskvöld og hefst kl. 19.30. Búast má við mikilli baráttu, sérstaklega á efstu borðum enda minnkar stigamunur andstæðinga hratt þegar líður á mótið.
Allar frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu mótsins.
- KORNAX mótið