Góður árangur Vignis Vatnars á Heimsmeistaramóti ungmenna



Lokaumferðin á Heimsmeistaramóti ungmenna í Maribor, Slóveníu, fór fram í gær og lauk Vignir Vatnar Stefánsson þátttöku sinni í flokki tíu ára og yngri með sigri á stigalausum heimamanni og tryggði sér þannig sæti í efri hluta töflunnar.  Hann hlaut 6 vinninga í ellefu skákum og hafnaði í 61.-83. sæti af tæplega 200 keppendum.  Vignir var númer 91 í stigaröðinni við upphaf móts.

 

Það sést vel hversu mikið Vignir tefldi upp fyrir sig að eftir stigaútreikning situr hann í 62. sæti af þeim rúmlega tuttugu keppendum sem hlutu 6 vinninga, en sá efsti þeirra endaði einu sæti ofar.  Það var aðeins í fyrstu og síðustu umferð sem Vignir tefldi við stigalausa andstæðinga en í öllum hinum tefldi hann við skákmenn sem voru u.þ.b. 150-350 stigum hærri en hann en sjálfur var Vignir með 1595 Elo stig við upphaf móts.

 

Vignir vann fimm skákir, gerði tvö jafntefli og tapaði fjórum.  Fjóra af sigrunum vann Vignir með svörtu en taka verður með í reikninginn að tveir af þeim komu gegn stigalausu andstæðingunum.  Árangur Vignis samsvarar 1750 Elo stigum og hækkar hann um 32 stig fyrir frammistöðuna og því ljóst að hann rýfur 1600 stiga múrinn örugglega.

Taflfélag Reykjavíkur óskar Vigni Vatnari til hamingju með mjög góðan árangur og þá má ekki gleyma stórmeistaranum, Helga Ólafssyni, sem hefur fylgt Vigni eins og skugginn að undanförnu og var með í för í Slóveníu líkt og faðir Vignis, Stefán Már Pétursson.

 

Hér að neðan fylgja til gamans nokkrir fróðleiksmolar frá mótinu og þá eru skákir Vignis úr umferðum 1-7 aðgengilegar en síðustu fjórar skákirnar verða aðgengilegar innan skamms.

 

  • Maribor er næststærsta borg Slóveníu og Menningarborg Evrópu 2012
  • Heimsmeistaramót ungmenna hefur verið haldið síðan 1974, þá í breyttri mynd en nú
  • 1.584 keppendur frá 91 landi tóku þátt í flokkunum tólf
  • Slóvenar voru flestir eða 148, Rússar voru 106 og Bandaríkjamenn 89
  • 192 keppendur tóku þátt í flokki Vignis Vatnars sem var númer 91 í stigaröðinni
  • Vignir Vatnar tefldi við sex Rússa í röð, 40% af Rússunum í flokknum
  • Sigurvegarinn í flokki Vignis, Víetnaminn Anh Khoi Ngyen, var eini keppandinn í mótinu sem fékk fullt hús vinninga
  • Í flokkunum tólf voru keppendur frá 31 landi í tíu efstu sætunum
  • Rússar voru sterkir, áttu 21 keppenda í topp tíu, Kína og Indland komu næst með 11 keppendur hvor þjóð
  • Sigurvegarar flokkanna tólf komu frá sjö löndum
  • Rússland og Indland átti þrjá sigurvegara hvor þjóð, Bandaríkin komu næst með tvo sigurvegara
  • Bandaríkin átti flesta sigurvegara hjá piltunum eða tvo
  • Hjá stúlkunum réðu Indland og Rússland ríkjum; Indverjar sigruðu í þremur flokkum af sex, Rússar í tveimur flokkum
  • Heimsmeistaramót ungmenna 2013 verður haldið í næststærstu borg Sameinuðu arabírsku furstadæmanna, Al Ain – verður Vignir Vatnar þar?
  • Heimasíða mótsins
  • Heildarúrslit
  • Skák Vignis úr 1. umf
  • Skákir Vignis úr 2. og 3. umf
  • Skákir Vignis úr 4. og 5. umf
  • Skákir Vignis úr 6. og 7. umf