Guðmundur Kjartansson (2356) sýndi styrk sinn í dag þegar hann sigraði indverska stórmeistarann S. Arun Prasad (2556) í þriðju umferð Skoska meistaramótsins. Guðmundur, sem stýrði svörtu mönnunum, virtist vera með skákina í höndum sér alveg frá byrjun og náði góðri sókn gegn Indverjanum sem laut í gras eftir 41 leik. Aron Ingi Óskarsson (1876) tapaði fyrir skoska skákmanninum Ian McDonald (1545).
Guðmundur er í 1.-2. sæti með fullt hús eftir þrjár umferðir en Aron Ingi er enn ekki kominn á blað.
Á morgun mætir Guðmundur indverska stórmeistaranum Magesh Chandran Panchanath (2493) en Aron teflir við Skotann Maryann McDonald (1469). Skák Guðmundar verður í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.
Teflt er í einum opnum flokki og eru 88 keppendur skráðir til leiks. Stigahæstur er skoski stórmeistarinn Jonathan Rowson (2591). Guðmundur er 13. stigahæsti þáttakandinn en Aron Ingi er nr. 59 í röðinni.
Skoska meistaramótið er án vafa eitt elsta skákmót í heiminum sem haldið hefur verið samfellt. Mótið í ár er það 116. í röðinni en það var fyrst haldið árið 1884.
Heimasíða mótsins
Skákirnar í beinni