Um seinustu helgi fór fram Íslandsmót ungmenna í Rimaskóla. Fyrirkomulag keppninnar var með örlítið öðru sniði en áður og var keppt um 10 íslandsmeistaratitla í fimm aldursflokkum. Á laugardegi voru tefldar 5 umferðir og komust þau sem hlutu 3 vinninga eða meira í úrslit á sunnudeginum.
Börn og unglingar úr Taflfélagi Reykjavíkur létu sig ekki vanta frekar en fyrri daginn og fjölmenntu á mótið. Einungis var liðin ein vika síðan sveitir frá félaginu unnu öll gullverðlaun sem í boði voru á Íslandsmóti unglingasveita og mátti gera ráð fyrir að margir krakkar úr félaginu yrðu einnig í toppbaráttunni á þessu móti.
Í flokki átta ára og yngri stóð Bjartur Þórisson sig mjög vel og endaði í 3-5 sæti (5 sæti á stigum) og var hársbreidd frá því að krækja í bronsverðlaun. Elsa Kristín Arnaldardóttir hlaut 5 vinninga líkt og tvær aðrar stúlkur sem síðan tefldu aukakeppni um Íslandsmeistaratitil stúlkna og þar krækti hún í silfrið. Elsa Kristín er mjög dugleg að mæta á æfingar og sannarlega í mikilli framför.
Í flokki 9-10 ára sigruðu krakkar úr TR bæði í opnum flokki og stúlknaflokki. Róbert Luu hlaut 7 1/2 vinning í 8 skákum og vann glæsilegan sigur í flokknum.
Freyja Birkisdóttir varð Íslandsmeistari stúlkna með 6 vinninga. Hún endaði í fjórða sæti í flokknum og sýndi það og sannaði að hún er í allra fremstu röð í sínum aldursflokki.
Fleiri krakkar úr TR voru að standa sig mjög vel í þessum flokki. Þannig hlaut Alexander Már Bjarnþórsson hlaut 5 vinninga líkt og Árni Ólafsson. Fast á hæla þeirra komu síðan Kristján Dagur Jónsson, Gabriel Sær Bjarnþórsson, Guðni Viðar Friðriksson, Benedikt Þórisson og Elísabet Xiang Sveinbjörnsdóttir sem hlaut silfrið í stúlknaflokki með 4 vinninga.
Í flokki 11-12 ára urðu strákar úr TR í þremur efstu sætunum. Arnar Milutin Heiðarsson sannaði að sigur hans í opna flokki Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur var engin tilviljun og sigraði með 7 vinninga af 9 mögulegum. Sannarlega glæsilegur árangur hjá Arnari sem hefur sýnt alveg ótrúlegar framfarir undanfarið. Mykhaylo Kravchuk tók silfrið á stigum en hann og Alexander Oliver Mai komu báðir í mark með 6 1/2 vinning. Alexander tók því bronsið. Enn einn TR-ingurinn Sævar Halldórsson kom svo skammt undan með 5 1/2 vinning og hafnaði í sjötta sæti.
Í flokki 13-14 ára unnu TR-ingar tvöfaldan sigur. Hilmir Freyr Heimisson fór mikinn og sigraði með fullu húsi, hlaut 7 vinninga af 7 mögulegum. Hann lét ekki þar við sitja heldur brunaði strax eftir mótið niður í Faxafen þar sem hann tók þátt í Hraðskákkeppni TR og vann þar titilinn Hraðskákmeistari Taflfélags Reykjavíkur! Frábær árangur hjá þessum 14 ára strák sem einnig varð Íslandsmeistari með A sveit félagsins á Íslandsmóti unglingasveita á dögunum.
Aron Þór Mai átti einnig gott mót og hafnaði í öðru sæti með 4 1/2 vinning. Aron er afar iðinn við kolann, sækir allar æfingar félagsins og lætur sig aldrei vanta á mót. Hann varð á dögunum í þriðja sæti í C flokki Haustmótsins og orðinn mjög sterkur skákmaður.
Í elsta flokknum 15-16 ára var svo komið að þungaviktarunglingum félagsins. Tvíburabræðurnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir voru mættir gráir fyrir járnum en þeir voru báðir í sigursveit Taflfélags Reykjavíkur á Íslandsmeistaramóti unglingasveita en einnig grár fyrir járnum var mættur Gauti Páll Jónsson sem að eigin sögn er Íslandsmeistari í að lenda í öðru sæti á íslandsmótum unglinga. Þorsteinn Magnússon var einnig í úrslitum og margoft sýnt að hann er sýnd veiði en ekki gefin. Fyrirfram mátti gera ráð fyrir mjög harðri baráttu um sigurinn en þegar á reyndi var það Bárður Örn sem tefldi eins og sá sem valdið hefur. Hann sigraði alla andstæðinga sína og kom langefstur í mark með 6 vinninga. Gauti Páll Jónsson hélt uppteknum hætti og hafnaði í öðru sæti og er nú talinn eiga lungann af silfurforðabúri íslenskra skákungmenna. Hann hlaut fjóra vinninga líkt og Símon Þórhallsson úr Skákfélagi Akureyrar og Björn Hólm og voru þeir allir einnig hnífjafnir á stigum. Úrslitin réðust í aukakeppni þeirra á milli þar sem Símon tók svo bronsið. Í fimmta sæti hafnaði svo Þorsteinn Magnússon með tvo vinninga.
Sannarlega glæsilegur árangur ungmennanna úr Taflfélagi Reykjavíkur sem halda áfram að sópa að sér verðlaunum. Við hjá TR óskum verðlaunahöfunum öllum til hamingju með árangurinn. Margir þessara krakka fara um næstu helgi út til Grikklands þar sem heimsmeistarmót ungmenna fer fram. Það verður gaman að sjá hvernig þeim vegnar þar á stóra sviðinu og við hjá félaginu munum fylgjast spennt með gengi þeirra og óskum þeim góðs gengis.