Annað mótið af fimm í Bikarsyrpu TR stendur nú yfir en auk þess fer fram Bikarmót stúlkna sem er nýtt af nálinni og haldið með Bikarsyrpunni. Alls eru keppendur 34 talsins; 29 í sjálfri Bikarsyrpunni þar sem tefldar eru sjö umferðir og 5 í hinu nýja Bikarmóti stúlkna þar sem allir tefla við alla.

Benedikt Briem er í toppbaráttunni.
Allir eru krakkarnir til mikillar fyrirmyndar við skákborðin en sumir þeirra eru að stíga sín fyrstu skref í slíku móti þar sem tímamörk eru lengri en oft áður og skrifa þarf allar skákirnar niður. Til gamans má geta þess að yngsti keppandinn í mótinu er fæddur árið 2011!

Hin efnilega Karen Ólöf Gísladóttir er á meðal keppenda í Bikarmóti stúlkna.
Þegar fjórum umferðum af sjö er lokið í Bikarsyrpumótinu eru Örn Alexandersson (1159) og Benedikt Briem (1199) efstir og jafnir með fullt hús vinninga en þeir mætast einmitt í fimmtu umferð sem fer fram á sunnudagsmorgun. Fimm keppendur koma síðan næstir með 3 vinninga og því ljóst að margt getur breyst í toppbaráttunni.
Hjá stúlkunum hafa þrjár umferðir verið tefldar og leiðir Elsa Kristín Arnaldardóttir með 2,5 vinning en næst með 1,5 vinning kemur Katrín María Jónsdóttir.

Margir efnilegir krakkar taka þátt í Bikarsyrpunni og er Kjartan Sigurjónsson einn þeirra.
Fjörið heldur áfram á morgun sunnudag þegar flautað verður til leiks í fimmtu umferð á slaginu 10. Hér að neðan má sjá öll úrslit ásamt myndum frá mótinu