Þeir Gauti Páll Jónsson og Björgvin Víglundsson gáfu engin grið í fyrstu umferðunum á síðasta Þriðjudagsmóti og tefldu þar af leiðandi úrslitaskák í síðustu umferð. Þar hafði sá fyrrnefndi sigur á fjölmennu móti (svona miðað við árstíma) og hefur nú unnið tvö mót í röð á þriðjudegi í TR. Í öðru sæti varð svo Björgvin Víglundsson sem varð efstur á stigum fjögurra skákmanna með 3 vinninga. Úr þeim hópi komu stigahástökkvararnir líka; Þorsteinn Magnússon og Guðmundur Edgarsson sem bættu við sig tæpum 30 stigum hvor með frammistöðunni.
Lokastöðu og önnur úrslit má annars sjá hér.
Næsta Þriðjudagsmót verður í þarnæstu viku 27. júlí, því mótin eru annan hvern þriðjudag yfir sumartímann eins og komið hefur fram áður. Þar verður reynt með öllum ráðum að koma í veg fyrir að Gauti Páll verð fyrstur til að ná Þriðjudagsmótaþrennu, þ.e. vinna þrjú mót í röð! Taflið hefst að venju 19:30 og tímamörk eru 15 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.