Gagnaveitumótið: Einar Hjalti efstur fyrir lokaumferðinaÁttunda og næstsíðasta umferð Gagnaveitumótsins – Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur fór fram í gær eftir að tíu daga hlé var gert á mótinu vegna Íslandsmóts skákfélaga.  Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson hélt áfram á sigurbraut en hann hafði betur gegn Sverri Erni Björnssyni í mikilli baráttuskák.  Einar Hjalti er því enn taplaus í mótinu og heldur efsta sætinu með 7 vinninga.

Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og stórmeistarinn Stefán Kristjánsson eru í 2.-3. sæti með 6,5 vinning en þeir unnu báðir sína andstæðinga í gær; Jón Viktor sigraði Dag Ragnarsson og Stefán lagði nafna sinn Bergsson.  Önnur úrslit urðu þau að Jóhann H. Ragnarsson sigraði Kjartan Maack og þá vann Oliver Aron Jóhannesson Gylfa Þór Þórhallsson.  Viðureignirnar í A-flokknum hafa einkennst af mikilli baráttu og til að mynda lauk fyrstu skákum gærkvöldsins ekki fyrr en rúmlega ellefu.

Einar, Jón og Stefán K hafa mikla yfirburði í A-flokknum en næstur með 4 vinninga er Stefán B.  Í lokaumferðinni mætast m.a. Jón Viktor og Stefán K en Einar Hjalti mætir Oliver Aroni.

Í B-flokki nægir Jóni Trausta Harðarsyni jafntefli í lokaumferðinni en hann leiðir með 7 vinningum eftir jafntefli við Sverri Sigurðsson.  Ingi Tandri Traustason er annar með 6 vinninga en hann gerði jafntefli við Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur og þriðji með 5,5 vinning er hinn efnilegi Þórir Benediktsson sem sigraði Hörð Garðarsson en Þórir má teljast heppinn þar sem Hörður missti af einfaldri leið til að vinna mann snemma skákar.

Þá gerðu Atli Antonsson og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir jafntefli og Tinna Kristín Finnbogadóttir sigraði Pál Sigurðsson en Páll hefur ekki fundið sig í mótinu að þessu sinni.  Tinna Kristín hefur nú unnið þrjár af síðustu fjórum skákum eftir rólega byrjun.  Í lokaumferðinni mætir Jón Trausti Herði og Ingi Tandri glímir við Sverri.

Spennan í C-flokki er yfirnáttúruleg og flokkurinn greinilega það jafn að allir geta unnið alla og ómögulegt er að spá fyrir um úrslit viðureigna.  Eftir umferðina í gær eru Valgarð Ingibergsson, Sigurjón Haraldsson og Elsa María Kristínardóttir efst og jöfn með 5 vinninga.  Valgarð sigraði Jón Einar Karlsson, Sigurjón gerði jafntefli við Birki Karl Sigurðsson en Elsa María hafði betur gegn Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur.  Sigurlaug kemur næst með 4,5 vinning ásamt Kristófer Ómarssyni.  Það er til marks um það hversu jafn C-flokkurinn er að aðeins munar 2,5 vinningi á efstu keppendum og þeim neðstu.

Í lokaumferðinni verður toppslagur á milli Elsu Maríu og Valgarðs og þá mætir Sigurjón Magnúsi Kristinssyni.

Í opna flokknum dró til tíðinda því forystusauðurinn, Haukur Halldórsson, tapaði fyrir hinum unga og efnilega Guðmundi Agnari Bragasyni á meðan Sóley Lind Pálsdóttir sigraði Bárð Örn Birkisson.  Sóley náði þar með Hauki að vinningum og eru þau nú jöfn í efsta sæti með 6 vinninga.  Hilmir Hrafnsson, Björn Hólm Birkisson og Guðmundur Agnar koma næstir með 5,5 vinning.  Spennan fyrir lokaumferðina er því mikil en pörun hennar er ekki ljós þar sem einni viðureign úr áttundu umferð er ólokið.

Níunda og síðasta umferðin fer fram á föstudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Fólk er hvatt til að líta við í Faxafeninu og fylgjast með spennandi lokaumferð en ávallt er heitt á könnunni og ljúffengar veitingar eru í boði gegn mjög vægu gjaldi.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1   2   3   4   5   6   7
  • Myndir