Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson er einn í efsta sæti með 5,5 vinning að loknum sex umferðum í Gagnaveitumótinu – Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur. Í sjöttu umferð, sem fór fram í gær, gerði Einar jafntefli við Stefán Bergsson en á sama tíma vann reynsluboltinn Gylfi Þór Þórhallsson góðan og óvæntan sigur á alþjóðlega meistaranum Jóni Viktori Gunnarssyni.
Þá hafði stórmeistarinn Stefán Kristjánsson betur gegn Degi Ragnarssyni og Kjartan Maack og Sverrir Örn Björnsson skildu jafnir en skák Jóhanns H. Ragnarssonar og Olivers Arons Jóhannessonar var frestað. Jón Viktor kemur næstur á eftir Einari Hjalta með 5 vinninga og stórmeistarinn Stefán er þriðji með 4,5 vinning. Stefán B hefur 3,5 vinning. Í sjöundu umferð, sem fer fram á sunnudag, mætast Jón Viktor og Einar Hjalti í einni af úrslitaviðureignum A-flokksins. Þá mætir Stefán K Jóhanni og Stefán B etur kappi við Dag.
Í B-flokki er baráttan hörð en Jón Trausti Harðarson og Ingi Tandri Traustason leiða með 5,5 vinning hvor, Þórir Benediktsson kemur næstur með 4,5 vinning og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir hefur 3,5 vinning. Engri skák sjöttu umferð lauk með jafntefli en Jón Trausti sigraði Hallgerði, Ingi Tandri vann Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur og Þórir lagði Atla Antonsson. Þórir og Jón Trausti mætast í sjöundu umferð en Ingi Tandri fær það hlutskipti að eiga við hina mjög svo sókndjörfu og fórnfúsu Tinnu Kristínu Finnbogadóttur.
Í C-flokki hafa orðið mannaskipti á toppnum og leiða nú Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir og Sigurjón Haraldsson með 4 vinninga hvor. Sigurlaug vann Kristófer Ómarsson og Sigurjón hafði betur gegn Jóni Einari Karlssyni. Valgarð Ingibergsson, sem lætur sér ekki muna um að keyra frá Akranesi í hverja umferð, og Elsa María Kristínardóttir koma næst með 3,5 vinning hvor.
Einn af mörgum liðsmönnum Vinjar í Gagnaveitumótinu, Haukur Halldórsson, heldur áfram góðu gengi í opna flokknum en hann sigraði Sóleyju Lind Pálsdóttur og hefur 5 vinninga. Hilmir Hrafnsson og Ragnar Árnason koma næstir með 4,5 vinning.
Sjöunda umferð hefst kl. 14 á sunnudag en síðan verður gert hlé á mótinu vegna Íslandsmóts skákfélaga.
- Úrslit, staða og pörun
- Skákir: 1 2 3 4 5 6
- Myndir