Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga – A-E sveitir TR



Gauti Páll Jónsson skrifar

Taflfélag Reykjavíkur átti við ramman reip að draga í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fram fór í Rimaskóla síðastliðna helgi. Nokkra sterka skákmenn vantaði og hafði það nokkur áhrif á öll liðin. Hið jákvæða var þó að nokkrir ungir menn hlutu eldskírn sína með A-liði TR. Það voru þeir Hilmir Freyr Heimisson, sem er nýjasti Candidate meistari Íslands, Bárður Örn Birkisson, auk þess sem  Björn Hólm Birkisson tefldi tvær skákir með A-liðinu. Af þeim stóð Bárður sig best, en hann fékk fjóra vinninga af fimm, harla gott í efstu deild! Í náinni framtíð verða þeir eflaust lykilmenn í sterku liði félagsins í fyrstu deild.

A-liðið var skipað alþjóðlegum meisturum á efstu tveimur borðunum, þeim Braga Þorfinnssyni og Guðmundi Kjartanssyni en þeir vinna að því að gerast stórmeistarar í skák. Stórmeistararnir grjóthörðu, Margeir Pétursson og Stefán Kristjánsson teflu þrjár skákir hvor, en alþjóðlegi meistarinn Karl Þorsteins lét eina duga. Fide-meistarinn Vignar Vatnar Stefánsson og Truxvaþjálfarinn Daði Ómarsson tefldu hvor um sig fjórar skákir. Daði stóð sig mjög vel, með þrjá og hálfan vinning, og styttist óðum í að hann verði útnefndur Fide-meistari. Efnilegasti eldri skákmaður Íslands, Björgvin Víglundsson halaði inn tvo vinninga í tveimur skákum með A-liðinu, vopnaður skyri. Fide-meistarinn knái Benedikt Jónasson tefli svo með A-liðinu í lokaumferðinni og gerði þar jafntefli við Ólaf Kristjánsson.

20171019_193452

TR er í fjórða sæti fyrir seinni hlutann og það er óskandi að liðið fari ekki mikið neðar en það. Fastlega má búast við sigri Víkingaklúbbsins, sem skartar ansi vígalegu liði þetta árið, en hinar sveitirnar í toppbaráttunni eru Skákfélagið Huginn, Fjölnir og Skákfélag Akureyrar. Árangur Garðabæjar kom skemmtilega á óvart en TR tapaði einmitt fyrir þeim í annarri umferð. Taflfélagsmenn munu færast í jötunmóð fyrir seinni hlutann og herja á Huginsmenn og Víkinga. Búast má við spennandi keppni þar sem allt getur gerst.

Það TR-lið sem stóð sig best í fyrri hlutanum var án efa B-liðið. B-liðið ætlar að sjálfsögðu að tryggja sér aftur sæti í fyrstu deild eftir svekkjandi fall á síðustu önn. Undirritaður og Aron Þór Mai fóru hamförum (ítreka að undirritaður er afar hógvær) en þeir fengu þrjá og hálfan vinning úr skákum sínum fjórum. Þeir voru þeir einu sem tefldu allar skákirnar með B-liðinu en Björn Hólm og Stefán Briem tefldu þrjár skákir, Sigurður Páll Steindórsson, Björgvin Víglundsson, Júlíus Friðjónsson og Kjartan Maack tefldu tvær skákir og þeir Benedikt Jónasson og Torfi Leósson tefldu eina skák, þó ekki við hvorn annan. B-liðið á þó eftir að mæta sterkustu sveitunum en undirritaður treystir spá Gunnars Björnssonar, forseta SÍ, sem segir: “Reyknesingar teljast þó líklegir til sigurs og að mati ritstjóra er b-sveit TR líklegust til að fylgja Suðurnesjamönnum upp í efstu deild.  Haukar og mögulega Vinaskákfélagið geta blandað sér í baráttuna um sæti í deild þeirra bestu.”

FB_IMG_1508966404127

Ljósmyndari: Helgi Árnason

C-liðið þarf því miður að berjast fyrir veru sinni í annarri deild en það er huggun harmi gegn að sveitin á einungis eftir neðstu sveitirnar þrjár og nær vonandi að hífa sig upp úr neðsta sæti næsta vor. C-liðið var fjölbreytt og að mestu skipað mönnum á stigabilinu 1700-2100. Liðið fékk erfiðasta planið í fyrri hlutanum, og úrslitin samkvæmt því. Alexander Oliver Mai fékk að tefla við þrjá Fide meistara og einn alþjóðlegan meistara á fyrsta borðinu með C-liðinu, ljóst að það var nóg að gera hjá starfsmönnum reynslubankans að taka við innlögnum frá honum þessa helgina. Í annarri umferð vann Georg Páll Skúlason skákmann 300 stigum hærri en Georg tefldi með hvorki meira né minna en þremur liðum um helgina, C,D og E liðum TR!

Þriðja deildin, var það heillinn. Sá sem hér skrifar kom D-liði TR upp í þriðju deild með hjálp Eiríks Björnssonar, Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur og ýmissa annarra kempna vorið 2015. Vonar hann svo innilega að sveitin rífi sig í gang og haldi sér þar sem hún á að vera, í þriðju deild! Manneklan var nokkuð mikil þetta árið og hafði hvað mest áhrif á D- og E liðin. En allt reddaðist að lokum með hjálp úr barnasveitunum, frá menntskælingum og alþingismönnum. 14 manns tefldu með D-liðinu í fyrri hlutanum, langflestir á stigabilinu 1400-1800. Jakob Alexander Petersen átti góða endurkomu og græddi 28 stig.

FB_IMG_1508966574964

Ljósmyndari: Ingibjörg Edda Birgisdóttir

E-liðið lenti í fjórða sæti fjórðu deildar seinasta vor en fékk að fara upp vegna þess að Skákfélag Íslands dró sig úr keppni. Einmitt núna er þriðja deildin líklega aðeins of stór biti fyrir E-liðið en það mun vonandi breytast smám saman. E-liðið var nú að mestu skipað skákmönnum með minna en 1400 stig. Ein skák vannst hjá E-liðinu og aftur er það hann Jakob sem á heiðurinn. Best væri líklega að hafa hann bæði í D- og E-liðinu! Því miður gat hundur Jónasar Þorvaldssonar ekki teflt að þessu sinni en mun vonandi sitja bísperrtur á sjötta borði E-liðsins að ári.