Friðrik unglingameistari og Veronika stúlknameistari TR



Barna- og unglingameistaramót Taflfélags Reykjavíkur sem og Stúlknameistaramóts félagsins fór fram í dag, 14. nóvember, í taflheimili félagsins Faxafeni 12. Keppt var í einum flokki og voru 7 umferðir tefldar eftir svissnesku kerfi en umhugsunartíminn var 15 mínútur á skák. Skákmótið var opið fyrir keppendur 15 ára og yngri og tóku 26 krakkar þátt: þar af 16 úr Taflfélagi Reykjavíkur, 7 úr Skákdeild Fjölnis, 2 úr Skákfélagi Íslands. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, en auk þess fyrir þrjár efstu stúlkurnar. Félagsmenn í TR kepptu einnig um titilinn Unglingameistari T.R. og Stúlknameistari T.R. Að auki voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í flokki 12 ára og yngri.

Skákmótið var einkar skemmtilegt og fór mjög svo prúðmannlega fram. Keppendur báru sig mjög fagmannlega að á skákstað og voru til fyrirmyndar í alla staði. Greinilega krakkar sem tefla mikið!

Eftir fjórðu umferð bauð Taflfélagið keppendum upp á pizzu og gos og gerði það mikla lukku! Skákstjórar gátu þess að þetta væri svo að segja 110 ára afmælisveisla félagsins fyrir krakkana og þá átti mjög vel við að slá upp “pizzupartý”  í miðju skákmóti!

Sigurvegari mótsins varð TR-ingurinn hæfileikaríki Friðrik Þjálfi Stefánsson og hann varð þar með einnig Unglingameistari T.R. 2010. Sigurvegari í stúlknaflokki var hin unga og efnilega Nancy Davíðsdóttir, Fjölni, sem tefldi af mikilli einbeitni og ákveðni. Í öðru sæti varð Veronika Steinunn Magnúsdóttir, sem einnig varð efst T.R. stúlkna og þar með Stúlknameistari T.R. 2010. Veronika Steinunn hefur verið mjög virk í skákinni að undanförnu og sýnt miklar framfarir.

Í flokki 12 ára og yngri sigraði svo Vignir Vatnar Stefánsson, T.R., sem aðeins er 7 ára gamall. Það er gaman að geta þess að langalangafi Vignirs Vatnars var Pétur Zóphóníasson, sem var einn af stofnendum Taflfélags Reykjavíkur 6. október 1900! En það hangir einmitt mynd af honum í salnum í T.R. En faðir Vignirs er Stefán Már Pétursson, sem er þá langafabarn Péturs Zóphóníassonar. Stefán Már varð á dögunum Hraðskákmeistari T.R. og var honum afhendur bikar fyrir þann sigur í lok mótsins í dag og voru það því sigursælir skákfegðar sem náðust á mynd í dag!

Skákstjórar voru Torfi Leósson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Elín Guðjónsdóttir aðstoðaði við pizzupartýið og Jóhann H. Ragnarsson tók myndir.

Úrslit skákmótsins urðu annars sem hér segir:

1 Friðrik Þjálfi Stefánsson , T.R. 6 v. af 7. Unglingameistari T.R. 2010.

  2 Jón Trausti Harðarson, Fjölnir, 5,5 v. 2. verðlaun Unglingameistaramót.

  3 Guðmundur Kristinn Lee, SFÍ, 5 v. 31 stig. 3. verðlaun Unglingameistaramót.

  4 Vignir Vatnar Stefánsson, T.R. 5 v. 30,5 stig. 1. verðlaun 12 ára og yngri

  5 Birkir Karl Sigurðsson, SFÍ,  5 v. 27,5 stig

  6 Þórður Valtýr Björnsson, T.R. 5 v. 27 stig. 2. verðlaun 12 ára og yngri.

  7 Dagur Ragnarsson, Fjölnir, 4,5 v. 31,5 stig

  8 Gauti Páll Jónsson, T.R. 4,5 v. 23 stig. 3. verðlaun 12 ára og yngri

  9 Oliver Aron Jóhannesson, Fjölnir, 4 v. 29,5 stig

 10 Nancy Davíðsdóttir, Fjölnir, 4 v. 29 stig. 1. verðlaun Stúlknameistaramót.

 11 Veronika Steinunn Magnúsdóttir, T.R. 4 v.  25 stig. 2. verðlaun. Stúlknameistari T.R. 2010.

 12 Jakob Alexander Petersen, T.R. 4 v. 23 stig

 13 Kristinn Andri Kristinsson, Fjölnir, 3,5 v. 27,5 stig

 14 Garðar Sigurðarson, T.R. 3,5 v. 22 stig

 15 Elín Nhung Boi, T.R. 3,5 v. 21 stig. 3. verðlaun Stúlknameistarmót.

 16 Kristófer Jóel Jóhannesson,  Fjölnir, 3 v.

 17 Þorsteinn Freygarðsson, T.R. 3 v.

 18 Leifur Þorsteinsson, T.R. 3 v.

 19 Andri Már Hannesson, T.R. 3 v. 

 20 Atli Snær Andrésson, T.R. 3 v,

 21 Donika Kolica, T.R. 2 v.

 22 Svandís Rós Ríkharðsdóttir, Fjölnir, 2 v.

 23 Eysteinn Högnason, T.R. 2 v.

 24 Benedikt Ernir Magnússon, 1,5 v.

 25 Matthías Ævar Magnússon, T.R. 1 v.

 26 Tómas Steinarsson, T. R. 0,5 v.

  • Myndagallerí mótsins (Jóhann H. Ragnarsson)