Hátt í 200 börn settust til tafls í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í dag er teflt var í yngri flokki Jólaskákmóts TR og Skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til, bæði við framkvæmd mótsins en ekki síður á taflborðunum sjálfum þar sem hart var tekist á í drengilegri keppni. Mótið var tvískipt og hóf Suður riðill keppni kl.10:30 en Norður riðill hófst klukkan 14:00.
Í Suður riðli -opnum flokki- vann Ölduselsskóli með miklum yfirburðum enda einkar vel skipuð skáksveit með reynslumikla skákmeistara á hverju borði. Sveitin hlaut hvorki fleiri né færri en 23 vinninga í 24 skákum! Keppnin um annað sætið og þar með sæti í úrslitum var æsispennandi. Fyrir síðustu umferð hafði Háteigsskóli 1,5 vinnings forskot á Norðlingaskóla en sveitirnar mættust einmitt í síðustu umferðinni. Að loknum þremur skákum leiddi Norðlingaskóli 2-1 og þurfti því sigur í síðustu skákinni til að tryggja sér annað sætið. Eftir mikinn barning fór þó svo að skákin endaði með jafntefli og þar með tryggði Háteigsskóli sér annað sætið þrátt fyrir að tapa viðureigninni 1,5-2,5. Háteigsskóli hlaut 16 vinninga en Norðlingaskóli varð í þriðja sæti með 15,5 vinning.
Í Norður riðli -opnum flokki- vann Rimaskóli með sömu yfirburðum og Ölduselsskóli fyrr um daginn. Hin feykisterka skáksveit Rimaskóla hlaut 23 vinninga í 24 skákum! Fossvogsskóli endaði í öðru sæti með 19 vinninga. Það má með sanni segja að þessar tvær sveitir hafi verið í nokkrum sérflokki. Ingunnarskóli endaði í 3.sæti með 16,5 vinning.
Í stúlknaflokki voru tvær sveitir efstar og jafnar með 13 vinninga; Melaskóli og Breiðholtsskóli. Því þurfti að grípa til stigaútreiknings til að fá fram sigurvegara og þá kom í ljós að skáksveit Melaskóla hafði hlotið efsta sætið en Breiðholtsskóli varð í 2.sæti. Í 3.sæti varð stúlknasveit Rimaskóla en hún hlaut 12,5 vinning. Skammt þar á eftir kom Ingunnarskóli með 11 vinninga.
Á morgun, mánudag, verður teflt til úrslita í opnum flokki yngri flokks. Þar mætast Rimaskóli, Ölduselsskóli, Fossvogsskóli og Háteigsskóli. Rimaskóli sigraði á mótinu í fyrra og á því titil að verja. Taflið hefst klukkan 17 og eru áhorfendur hjartanlega velkomnir að líta við og fylgjast með framtíðarstjörnum skáklistarinnar að störfum við skákborðið.
Á sama tíma og teflt er til úrslita í yngri flokki verður teflt í eldri flokki Jólaskákmóts TR og SFS. Þar verður án efa hart barist enda margar sterkar skáksveitir skráðar til leiks. Rimaskóli á titil að verja í opnum flokki, en stúlknaflokkinn í fyrra sigraði Breiðholtsskóli. Taflið hefst klukkan 17 og eru áhorfendur hjartanlega velkomnir.
Nánari fréttir munu birtast að því loknu. Taflfélag Reykjavíkur vill þakka þeim fjömörgu börnum sem tóku þátt í gær, sem og liðstjórum og foreldrum sem aðstoðuðu við að gera mótið að frábærlega vel heppnaðri skákveislu.