Önnur umferð í Skámóti Öðlinga fór fram á miðvikudagskvöld og var nokkuð um að stigalægri keppendur næðu að stríða hinum stigahærri. Á tveimur efstu borðunum voru úrslit þó eftir bókinni góðu þar sem Fide meistarinn Sigurður Daði Sigfússon lagði TR-inginn Eirík K. Björnsson og núverandi Öðlingameistari, Þorvarður F. Ólafsson, sigraði hinn reynda Halldór Garðarsson sem gekk á dögunum í TR eftir stutta fjarveru.
Úrslit viðureignanna á næstu tveimur borðum verða að teljast óvænt en þar gerðu jafntefli annarsvegar Hrafn Loftsson og Siguringi Sigurjónsson og hinsvegar Jon Olav Fivelstad og alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason. Þá má nefna að Einar Bjarki Valdimarsson sigraði Pál Sigurðsson og Magnús Kristinsson hafði betur gegn Jóni Úlfljótssyni.
Sigurður Daði og Þorvarður hafa fullt hús ásamt Jóhanni H. Ragnarssyni og Þór Má Valtýssyni en sjö keppendur hafa 1,5 vinning. Hlé verður nú gert á mótinu vegna páska en í þriðju umferð sem fer fram miðvikudagskvöldið 3. apríl mætast m.a. Þór og Sigurður Daði, Þorvarður og Jóhann sem og Ólafur Gísli Jónsson og Hrafn.
- Chess-Results