Þriðja umferð KORNAX mótsins – Skákþings Reykjavíkur fór fram í kvöld. Á efsta borði sigraði alþjóðlegi meistarinn, Bragi Þorfinnsson (2398), Hrafn Loftsson (2256) í æsilegri og illskiljanlegri skák þar sem Hrafn fór sér líklega fullgeyst í byrjuninni og fékk erfiða stöðu í kjölfarið þar sem kóngur hans var berskjaldaður. Þá sigraði Hjörvar Steinn Grétarsson (2358) Þorvarð F. Ólafsson (2217) í langri baráttuskák.
Allnokkur jafntefli litu dagsins ljós en fimm skákum á ellefu efstu borðunum lauk með skiptum hlut og var í öllum tilfellum töluverður stigamunur á keppendum. Má þar helst nefna viðureign Tinnu Kristínar Finnbogadóttur (1805) og Stefán Bergssonar (2079) en Tinna hafði áður gert jafntefli við alþjóðlega meistarann, Sævar Bjarnason (2164). Þá gerðu Magnús P. Örnólfsson (2185) og Páll Sigurðsson (1880) einnig jafntefli sem og Hallgerður H. Þorsteinsdóttir (1946) og Júlíus L. Friðjónsson (2174).
Efst og jöfn með 3 vinninga eru Bragi, Ingvar Þór Jóhannesson (2330), Hjörvar og Lenka Ptacnikova (2315). Sex skákmenn koma næstir með 2,5 vinning.
Fjórða umferð fer fram á sunnudag og hefst kl. 14.
Nánari upplýsingar á heimasíðu mótsins.