Fjórir efstir á Skákþinginu



Nú er þremur umferðum lokið af Skákþingi Reykjavíkur og eru fjórir skákmenn efstir með fullt hús; Vignir Vatnar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson, Sigurbjörn Björnsson og Aron Þór Mai. Guðmundur Kjartansson sigraði varaformann TR í langri skák eftir að Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður MótX lék fyrsta leikinn fyrir hinn síðarnefnda. Reyndar lék Vignir d-peðinu nánast alla leið á d5 í upphafsstöðunni, sem var nokkuð einkennandi fyrir skákina því seinna meir átti hvítur eftir að ýta peðunum án þess að hugsa um þá reiti sem mynduðust í framhaldinu fyrir riddara svarts. MótX styrkti Taflfélag Reykjavíkur nú á dögunum fyrir kaupum á skákklukkum og “beinleiðis borðum”, enda megum við ekki láta apaloppuna “live-skákborð” taka yfir! 

vs

Úrslit umferðarinnar voru furðumörg eftir bókinni góðu, en það segir þó ekki alla söguna því oft getur verið stutt milli feigs og ófeigs. Benedikt Þórisson tefldi mjög vel gegn Stephani Briem og komst grátlega nálægt vinningnum en lenti í riddara og hróks mátneti þegar hann var drottningu yfir. Öll höfum við samt lent í svona skákum og þær eru mikilvægur hluti af lærdómsferlinu. Ef Benedikt heldur áfram á sömu braut munu þessir vinningar skila sér í hús von bráðar. Í humátt á eftir efstu mönnum eru Davíð Kjartansson, áðurnefndur Stephan Briem, Mikael Jóhann Karlsson og Júlíus Friðjónsson með 2.5 vinning. 

umf3

Í fjórðu umferð, næstkomandi miðvikudagskvöld, er toppslagur á fyrsta borði, en þá mætast Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar. Sigurbjörn Björnsson mætir svo Aroni Þór Mai á öðru borði. Birnukaffi verður opið eins og fyrri daginn, hvar veisluborðin svigna undan kræsingunum.