Á meðan netið datt út hér á skákstað í Mysliborz dróg til tíðinda í skákum drengjanna.
Skák Daða og Svetlönu, sem var hárbeitt allan tímann – enda hófst hún á hárbeittu afbrigði í Kóngsindverskri vörn – endaði í flóknu endatafli sem að lokum leystist upp í jafntefli.
Vilhjálmur gerði sömuleiðis jafntefli, en þar var teflt Benkö-bragð og fór líka út í endatafl.
Aron Ellert, sem mætti Katalónskri byrjun sennilega í fyrsta sinn, og Einar lendu undir mikilli pressu frá andstæðingunum og urðu að lokum að gefast upp.
Engu að síður voru þetta lærdómsríkar skákir, ekkert síður fyrir Einar og Aron.
Þegar þetta er skrifað situr Matti enn að tafli (en hann hefur löngum verið þaulsetnastur allra í liðinu) og Villi segir að hann sé með unnið. Sel það ekki dýrara…
Klukkan átta í kvöld verður boðið upp á grillveislu. Skákstjórinn, Rafal Siwik, sem líka hefur verið óopinber túlkur mótsins, hefur farið mikinn í enskum lýsingum sínum á því að “tonight we roast a pig!”. Ekki mun þessi grænmetisæta geta látið það ofan í sig, en ég kom með frónverskar soja-pylsur; sjáum hvort það dugi á grillið.
Torfi Leósson