Fjör á fyrstu Laugardagsæfingu TR



Laugardagsæfingar Taflfélags Reykjavíkur hófust með trukki nú um seinustu helgi. Hátt á fjórða tug barna mættu á þessar fyrstu æfingar starfsársins. Fagnaðarfundir urðu hjá mörgum krökkum sem sóttu æfingarnar stíft síðasta vetur á meðan aðrir voru að mæta á sína fyrstu æfingu hjá félaginu. Eftirvæntingin leyndi sér þó ekki hjá öllum sem gátu vart beðið eftir að hefja taflmennskuna. Að lokum var það Róbert Luu sem reyndist hlutskarpastur með 5,5 vinning í 6 skákum.

Margir krakkanna hafa lítið teflt í sumar, enda margt annað skemmtilegt að gera. Þó eru á því undantekningar og sumir lögðu meira að segja land undir fót og tóku þátt í skákmótum erlendis! Meðal þeirra var Freyja Birkisdóttir, átta ára, sem keppti á opna skákmótinu í Pardubice í Tékklandi í sumar ásamt bræðrum sínum þeim Birni Hólm og Bárði Erni sem eru fjórtán ára. Þeir bræður voru einmitt í kennslu ásamt öðrum hjá íslandsmeistaranum í skák, Guðmundi Kjartanssyni uppi í risinu á sama tíma og laugardagsæfingarnar fóru fram. Skákhöllin var því fullnýtt þennan laugardaginn og iðaði hún af skáklífi!

Ekki verður minna um að vera um næstu helgi, en þá fer fram fyrsta mótið í Bikarsyrpu Taflfélagsins sem er sérsniðið kappskákmót fyrir krakka, og það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Mótið uppfyllir öll skilyrði alþjóða skáksambandsins Fide til að vera reiknað til alþjóðlegra skákstiga.

Mótið er kjörið tækifæri fyrir þá krakka sem tekið hafa þátt í skákæfingum félagsins til að hefja þátttöku sína í kappskákmótum og viljum við hjá Taflfélaginu hvetja þau til þátttöku.

  • Skráning í Bikarsyrpu T.R.
  • Upplýsingar um Bikarsyrpu T.R.