Fjöltefli á laugardagsæfingu



Fyrsta laugardagsæfing ársins fór fram 10. janúar eins og boðað hafði verið til fyrir jól. Skákæfingin, sem að öllu jöfnu fer fram í aðalsal Taflfélagins, fór að þessu sinni fram upp í risi (eða rjáfri) eins og við köllum það. Þetta litla afdrep er einungis notað ef salurinn er bókaður fyrir skákmótahald, eins og að þessu sinni, þegar Íslandsmót barna 10 ára og yngri fór þar fram svo að segja samtímis.
 
Sævar Bjarnason tefldi fjöltefli við krakkana 12 sem mætt voru. Fjöltefli er ágæt tilbreyting frá hefðbundnum skákæfingunum, auk þess sem krakkarnir venja sig við að leika ekki leiknum á borðinu samstundis, heldur “sitja” á leiknum í smá stund, og þurfa því að tefla aðeins hægar en þegar um venjulegar 7 mínútna skákir er að ræða. Krakkarnir voru einbeitt við taflmennskuna og létu hvorki kliðinn í 96 börnum ásamt foreldrum niðri í skáksal né vöffluilminn frá Birnu í eldhúsinu trufla sig.
 
Að venju var svo hressing á dagskrá (djús og kex) og síðan var öllum á æfingunni boðið að kíkja aðeins niður í skáksalinn og virða fyrir sér fjölmenna skákmótið þar. Í lokin var hringstiginn klifinn aftur upp í ris og krakkarnir tefldu frjálst við hvort annað og Sævar fékk að vera með. Allar digital skákklukkur félagsins voru í notkun í skákmótinu og því þurfti að taka fram gömlu sænsku skákklukkurnar. Ekki var laust við að krökkunum þættu þær dálítið skrýtnar, því á þær vantaði digital takkana! En þessar klukkur, sem eru í sama stíl og vekjaraklukkur ömmu og afa, sem þarf að trekkja upp, komu að notum og sönnuðu enn einu sinni tilverurétt sinn.
 
Þau sem tóku þátt í fyrstu laugardagsæfingu ársins og fá því 1 mætingarstig hvert voru (í stafrófsröð): Einar Björgvin Sighvatsson, Figgi Truong, Gunnar Helgason, Halldóra Freygarðsdóttir, Hörður Sindri Guðmundsson, Jakob Alexander Petersen, Jón Eðvarð Viðarsson, María-e-Zahida, Páll Ísak Ægisson, Samar-e-Zahida, Smári Arnarson, Sólrún Elín Freygarðsdóttir.

Mjög gaman er einnig að nefna að 11 aðrir krakkar, sem hafa verið að mæta á laugardagsæfingarnar í vetur, tóku þátt Íslandsmóti barna, niðri í aðalsal, á sama tíma og laugardagsæfingin fór fram. Þessir krakkar voru (í stafrófsröð): Aron Daníel Arnalds, Bjarni Dagur Thor Kárason, Elvar P. Kjartansson, Gauti Páll Jónsson, Hákon Rafn Valdimarsson, Mariam Dalía Ómarsdóttir, Mías Ólafarson, Ólafur Örn Olafsson, Skúli Guðmundsson, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, Þorsteinn Freygarðsson.
 
Við sem sjáum um skákæfingarnar á laugardögum hvetjum alla krakkana að taka þátt í mótum sem ætluð eru hverjum aldursflokki fyrir sig, hvort sem er um einstaklingsmót eða sveitakeppnir að ræða.
 
 
Umsjónarmaður var Elín Guðjónsdóttir og aðstoðarmaður (í staðinn fyrir Sigurlaugu) var Jóhann H. Ragnarsson.
 
Verið velkomin næsta laugardag kl. 14-16
 
 
_______________________________________________________________
Umsjón með laugardagsæfingunum skipta þau með sér þau Elín Guðjónsdóttir,
Magnús Kristinsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, sem öll eru í
stjórn Taflfélags Reykjavíkur og mynda ásamt Torfa Leóssyni barna -og
unglinganefnd T.R.
Veffang: https://taflfelag.is/