Vetrarmót öðlinga hófst síðastliðið miðvikudagskvöld en mótið er nú haldið í þriðja sinn. 37 keppendur hófu leik og a.m.k. einn þátttakandi mun bætast við þannig að fjöldi keppenda er svipaður og þegar mótið var haldið fyrst. Það er athyglisvert að nú er einnig í gangi Skákþing Garðabæjar þar sem teflt er einu sinni í viku, líkt og í Vetrarmótinu. Þar eru tæplega 30 þátttakendur í A-flokki og því ljóst að eftirspurnin er til staðar fyrir mót með slíku fyrirkomulagi.Vetrarmótið er vel mannað þar sem TR-ingurinn Hrafn Loftsson er stigahæstur þátttakenda með 2218 Elo stig. Næstur með 2169 stig er Bolvíkingurinn Magnús Pálmi Örnólfsson og þá Akureyringurinn Gylfi Þór Þórhallsson með 2154 stig en Gylfi hefur verið með eindæmum virkur í skákmótum að undanförnu. Þá er ánægjulegt að sjá Ríkharð Sveinsson meðal þátttakenda en Ríkharður hefur haldið sig nokkuð til hlés í taflmennskunni að undanförnu. Ríkharður er fjórði í stigaröðinni með 2127 stig og mun baráttan um sigur í mótinu líklega standa á milli þessara fjögurra skákmanna.Strax í fyrstu umferð litu óvænt úrslit dagsins ljós en Magnús Kristinsson gerði jafntefli með svörtu mönnunum gegn Hrafni og þá sigraði Yngvi Björnsson Gylfa, einnig með svörtu. Í öðrum viðureignum sigraði sá stigahærri ef frá er skilið jafntefli Kristjáns Hallbergssonar og Óskars Haraldssonar.
Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Pörun hennar er ekki ljós en verður birt um leið og frestuðum viðureignum er lokið. Teflt er í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 og eru áhorfendur velkomnir en ávallt er heitt á könnunni í Skákhöllinni.
- Úrslit, staða og pörun