KORNAX mótið – Skákþing Reykjavíkur 2013 hófst með miklum myndarbrag í dag þegar 63 keppendur settust niður við reitina 64 í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Að lokinni setningarræðu Sigurlaugar Regínu Friðþjófsdóttur formanns T.R. lék fulltrúi KORNAX, Kjartan Már Másson, fyrsta leiknum í viðureign Fide meistarans og stigahæsta keppanda mótsins, Davíðs Kjartanssonar, og einum af efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar, hins níu ára Vignis Vatnars Stefánssonar. Þar með hófst 82. Skákþing Reykjavíkur en mótið hefur verið haldið óslitið síðan 1932.
Mótið er nokkuð vel skipað og er styrkleiki stigahæstu keppenda svipaður og í fyrra. Sem fyrr segir er Davíð stigahæstur með 2329 Elo stig en Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson er næstur með 2301 stig. Stórmeistari kvenna sem og Íslandsmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, er þriðja í stigaröðinni og eiginmaður hennar, Omar Salama, er fjórði. Tveir TR-ingar koma næstir, þeir Daði Ómarsson og reynsluboltinn Júlíus L. Friðjónsson. „Leikjahæsti“ skákmaður þjóðarinnar, hinn mjög svo reynslumikli og virki skákmaður, alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason, er svo sjöundi í röðinni en Sævar hefur verið á miklu skriði að undanförnu.
Auk Vignis Vatnars tekur stór hluti efnilegustu skákmanna Íslands þátt í Skákþinginu. Má þar nefna Fjölnispiltana Oliver Aron Jóhannesson, Dag Ragnarsson , sem sigraði í B-flokki Haustmótsins, og Jón Trausta Harðarson, Akureyringinn Mikael Jóhann Karlsson sem og Örn Leó Jóhannsson úr Skákfélagi Íslands sem hefur þó heldur dregið úr taflmennsku að undanförnu. Þá er vert að nefna Hellismanninn Dawid Kolka sem sigraði í opna flokki Haustmótsins. Þá er ánægjulegt að sjá hve margir af fulltrúum yngstu kynslóðarinnar taka þátt og eru margir að stíga sín fyrstu skref á kappskákmóti.
Það er þessi flóra af skákmönnum og sú staðreynd að allir keppa saman í einum flokki sem gerir Skákþingið svo skemmtilegt og áhugavert sem það er. Ungir og upprennandi skákmenn fá þarna gullið tækifæri til að spreyta sig gegn sterkum og reyndum skákmönnum sem oftar en ekki þurfa að hafa sig alla við til að bíða ekki ósigur. Óvænt úrslit eru því stór hluti af Skákþingi Reykjavíkur.
KORNAX er nú aðalstyktaraðili mótsins fjórða árið í röð sem gerir það að verkum að verðlaunafé er með því betra sem gerist í íslensku mótahaldi. Þrátt fyrir ágætan styrkleika mótsins vantar þó marga sterka skákmenn sem er að hluta til vegna fjölda móta yfir vetrarmánuðina og móta sem skarast jafnvel , beint eða óbeint, við dagskrá hvers annars. Þegar fjöldi móta er orðinn slíkur, sem er mjög jákvætt fyrir skákmenningu þjóðarinnar, skiptir samvinna skákfélaganna höfuðmáli og þar gegnir Skáksamband Íslands stóru hlutverki sem samband allra íslenskra skákfélaga.
Eins og gengur var styrkleikamunur í viðureignum fyrstu umferðar mikill og var niðurstaðan sú að stigahærri keppandinn vann þann stigalægri í öllum tilfellum. Strax í annari umferð, sem fer fram á miðvikudag og hefst kl. 19.30, minnkar styrkleikabilið og má þá búast við nokkrum óvæntum úrslitum. Á efstu borðum mætir Davíð Atla Antonssyni, Einar Hjalti fæst við Dag og Lenka mætir Jóni Úlfljótssyni. Pörun ásamt stöðu og öllum úrslitum má sjá á Chess-Results sem vísað er í hér að neðan.
Skákstjórn er í höndum Ólafs S. Ásgrímssonar og Ríkharðs Sveinssonar og Birna Halldórsdóttir sér um sína þekktu veitingasölu meðan á móti stendur. Þá eru skákir efstu keppenda sendar beint út á vefnum í hverri umferð og vert að nefna að áhorfendur eru sérstaklega velkomnir.
- Úrslit, staða og pörun
- Dagskrá og upplýsingar
- Skákmeistarar Reykjavíkur
- Mótstöflur síðustu ára