Fimm með fullt hús í Skákþingi Reykjavíkur



Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson, Fide meistararnir Sigurbjörn Björnsson og Einar Hjalti Jensson, stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova og Þorvarður F. Ólafsson hafa öll þrjá vinninga að loknum þremur umferðum í Skákþingi Reykjavíkur sem fram fór í dag.  Fimm keppendur fylgja í kjölfarið með 2,5 vinning.

 

Jón Viktor sigraði Oliver Aron Jóhannesson, Sigurbjörn lagði Mikael Jóhann Karlsson, Einar Hjalti hafði betur gegn Degi Ragnarssyni og Þorvarður vann Harald Baldursson.  Af eftirtektarverðum úrslitum má nefna jafntefli Fide meistarans Davíðs Kjartanssonar og Þórs Más Valtýssonar og sömuleiðis gerðu Jón Úlfljótsson og hinn efnilegi Gauti Páll Jónsson jafntefli.

 

Þá vann Bárður Örn Birkisson góðan sigur á Ingvari Erni Birgissyni en á þeim munar 500 Elo stigum þeim síðarnefnda í hag.  Bárður Örn er liðsmaður T.R. og það er einnig Mykhaylo Kravchuk sem gerði gott jafntefli við Vigni Bjarnason en þar er um svipaðan stigamun að ræða.

 

Fjórða umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7 8 9
  • Myndir
  • Mótstöflur SÞR
  • Skákmeistarar Reykjavíkur