Líkt og í fyrstu umferð Skákmóts öðlinga sáust athyglisverð úrslit í þeirri annari sem fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld í notalegri stemningu í Skákhöll TR. Úrslit í viðureignum tveggja efstu borðanna voru þó eftir bókinni þar sem Sigurður Daði Sigfússon (2299) sigraði Kristján Örn Elíasson (1861) örugglega á fyrsta borði með svörtu þar sem tefldur var hinn hárbeitti skoski leikur. Hinn vígalegi og skeggjaði Kristján Örn fór snemma út á ótroðnar slóðir og hleypti skákinni upp eins og honum er einum lagið. Sigurður Daði tók því opnum örmum enda þekktur fyrir flest annað en að liggja í vörn á reitunum 64 og lagði hvítu mennina örugglega.
Á öðru borði lagði Þorvarður F. Ólafsson (2195) hinn margreynda Árna H. Kristjánsson (1894) sömuleiðis án mikilla vandræða en á þriðja borði vann Magnús Kristinsson (1822) núverandi Öðlingameistara, Einar Valdimarsson (2029), með svörtu í nokkurskonar furðuskák þar sem Einar fór fullgeyst í gambítum og mannsfórnum. Þá má nefna góðan sigur Kjartans Mássonar (1760) á nafna sínum Kjartani Maack (2110) og sigur Óskars Long Einarssonar (1691) á Bjarna Sæmundssyni (1870). Að auki voru gerð þrjú jafntefli þar sem stigamunur keppenda í milli var allnokkur.
Fimm keppendur hafa unnið báðar sínar viðureignir, en þeir eru, ásamt Sigurði Daða, Þorvarði og Magnúsi, Siguringi Sigurjónsson (1971) og Stefán Arnalds (2007).
Þriðja umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Þá mætast m.a. Sigurður Daði og Siguringi, Stefán og Þorvarður, sem og Magnús og Ingi Tandri Traustason (1916). Áhorfendur velkomnir – alltaf heitt á könnunni. Skákirnar ásamt úrslitum og myndum frá mótinu má nálgast hér að neðan.
- Chess-Results
- Skákinar: 1. umf 2. umf