Einar Hjalti leiðir á KORNAX mótinu



Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson sigraði stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu, í fjórðu umferð KORNAX mótsins – Skákþings Reykjavíkur sem fram fór í gærkvöldi.  Á sama tíma gerðu Omar Salama og Fide meistarinn Davíð Kjartansson jafntefli og er Einar því einn efstur með fullt hús vinninga.

 

Davíð og Omar koma næstir með 3,5 vinning ásamt Halldóri Pálssyni sem sigraði Hilmar Þorsteinsson, Júlíusi L. Friðjónssyni sem sigraði Mikael Jóhann Karlsson og alþjóðlega meistaranum Sævari Bjarnasyni sem lagði Örn Leó Jóhannsson.  Ellefu keppendur fylgja í humátt með 3 vinninga, þar á meðal nýkrýndur Íslandsmeistari barna, Vignir Vatnar Stefánsson, sem fylgdi Íslandmeistaratitlinum eftir með góðum sigri á Páli Sigurðssyni en Páll er rúmlega 350 stigum hærri en Vignir.  Þá er vert að nefna góðan sigur hins unga og efnilega Felix Steinþórssonar á Birki Karli Sigurðssyni en á þeim munar rúmlega 300 skákstigum.

 

Þar sem skák Óskars Long Einarssonar og Haraldar Baldurssonar fer fram í kvöld verður pörun fimmtu umferðar ekki ljós fyrr en að lokinni þeirri viðureign.  Athygli er vakin á því að á Chess-results má sjá öll úrslit ásamt einstaklingsárangri og annari tölfræði.

 

Fimmta umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Veitingar eru seldar gegn vægu gjaldi og áhorfendur eru velkomnir.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur síðustu ára
  • Myndir (JHR)