Davíð efstur á Haustmótinu



Davíð Kjartansson hefur tekið forystu á Haustmóti TR eftir sigur á Hrafni Loftssyni í sjöttu umferð sem tefld var í gærkveldi.  Davíð hefur 4,5 vinning en næstur kemur Hrafn með 4 vinninga en þrír skákmenn eru jafnir í 3.-5. sæti með 3 vinninga.

Í b-flokki heldur Bjarni Jens Kristinsson áfram góðu gengi og lagði Kristján Örn Elíasson og heldur því efsta sætinu með 5 vinninga.  Fast á hæla hans kemur Jorge Fonseca með 4,5 vinning eftir sigur á Herði Garðarssyni sem lék illa af sér í byrjuninni.  Norðlendingurinn knái, Stefán Bergsson er í þriðja sæti með 3,5 vinning.

Staða efstu manna í c-flokki hélst óbreytt þegar Páll Sigurðsson sigraði Sigurð H. Jónsson og Ólafur Gísli Jónsson lagði Aron Inga Óskarsson.  Páll er efstur með 5 vinninga, Ólafur annar með 4,5 vinning og Matthías Pétursson er þriðji með 4 vinninga.

Í d-flokki leiðir Barði Einarsson enn með 4,5 vinning, Rafn Jónsson er annar með 4 vinninga og Hörður Hauksson og Dagur Andrei Friðgeirsson er jafnir í 3-4. sæti með 3,5 vinning.

Páll Andrason leiðir e-flokk sem fyrr með 5,5 vinning og virðist fátt geta komið í veg fyrir sigur hans en hann er með vinningsforskot á næstu keppendur, Dag Kjartansson og Hrund Hauksdóttur.

Sjöunda umferð fer fram á sunnudag kl. 14 og eru áhorfendur velkomnir.

Úrlist, stöðu og pörun má nálgast á Chess-Results.

  • Skákir mótsins