Dagur Ragnarsson kom sá og sigraði á vel sóttu Hraðskákmóti Reykjavíkur sem fór fram síðastliðinn sunnudag. Alls tóku 40 skákmenn þátt í mótinu, allt frá reyndum meisturum niður í kornunga keppendur sem mæta orðið á öll skákmót sem eru í boði.
Omar Salama byrjaði mótið með látum og var efstur með fullt hús eftir fimm umferðir en tapaði í þeirri sjöttu fyrir Degi. Baráttan á toppnum var geysihörð og menn skiptust á að leiða mótið í lokaumferðunum.
Fyrir 11. og síðustu umferð stóð Ólafur B. Þórsson með pálmann í höndunum og leiddi með með 8.5 vinning. Ólafur sem tvisvar hefur hampað titlinum, fyrst fyrir akkúrat 20 árum mætti Oliver Aron Jóhannessyni í lokaumferðinni meðan Dagur sem var í öðru sæti með 8 vinninga tefldi við menntaskólakennarann knáa Eirík K. Björnsson. Dagur sigraði örugglega og því varð Ólafur helst að vinna Oliver. Það gékk þó ekki eftir og Oliver sigraði og rétti því félaga sínum úr gamla Rimaskólagenginu hjálparhönd á ögurstundu.
Dagur er vel að sigrinum kominn og hefur farið mikinn við skákborðið að undaförnu. Hann endaði í 3.-8. sæti á Skákþingi Reykjavíkur á dögunum og tapaði þar einungis einni skák, gegn sigurvegara mótsins alþjóðameistaranum Jóni Viktori Gunnarssyni. Dagur er einnig að gera mjög vel á Nóa Síríusmótinu sem nú stendur yfir og situr þar sem stendur í þriðja sæti með 4 vinninga eftir 5 umferðir. Þar hefur hann lagt að velli ekki minni spámenn en alþjóðameistarann Karl Þorsteins og stórmeistara kvenna Lenku Ptácníkovu.
Ólafur B. Þórsson náði öðru sætinu á stigum þrátt fyrir tapið í síðustu umferð en þriðji varð Omar Salama. Báðir hlutu þeir átta og hálfan vinning.
Ýmis óvænt úrslit litu dagsins ljós í mótinu og voru ungu skákmennirnir þar oft í aðalhlutverki. Sérstaklega ber þar að nefna glæsilegan sigur Arons Þórs Mai (1262) á stórmeistara kvenna Lenku Ptácníkovu (2270) en þar munar heilum 1008 skákstigum! Aron hefur verið gríðarlega duglegur að sækja æfingar Taflfélagsins, mætir á öll mót og er í hraðri framför. Björgvin Kristbergsson (1165) lagði síðan Kjartan Maack (2115) að velli í sjöttu umferð. Kjartan féll á tíma með koltapað tafl og virtist brugðið. Honum til happs var gert stutt hlé eftir þá umferð og náði hann þá aftur vopnum sínum vann fimm síðustu skákirnar og endaði í 6.-8. sæti með sjö vinninga.
Tvíburabræðurnir ungu Björn Hólm og Bárður Örn vöktu einnig athygli en þeir tefldu báðir lengi móts uppi á pallinum og fengu þar dýrmæta reynslu gegn sér miklu reyndari skákmönnum. Þeir virtust þó báðir saddir í lokaumferðunum og fengu samanlagt einungis ½ vinning í þremur seinustu umferðunum. Björn endaði með 6 vinninga og Bárður með hálfum vinning minna.
Enginn virtist koma sjálfum sér meira á óvart en Pirc sérfræðingurinn Kristján Örn Elíasson sem var kominn alla leið upp á annað borð í áttundu umferð. „Gaman að þessu“ kom að sjálfsögðu í upphafi skákar hans þar gegn Degi Ragnarssyni. Hann tapaði örugglega og hvarf svo fljótt af pallinum!
Heildarúrslit: http://chess-results.com/tnr161147.aspx?lan=1&art=1&rd=11&fed=ISL&wi=821
Eftir verðlaunaafhendingu fyrir Hraðskákmót Reykjavíkur voru veitt verðlaun fyrir Skákþing Reykjavíkur. Eins og komið hefur fram í fréttum sigraði alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson á skákþinginu og er því Skákmeistari Reykjavíkur 2015. Þar vakti glæsileg frammistaði hins unga Mikaels Jóhanns Karlssonar sérstaka athygli en hann endaði í öðru sæti eftir öruggan sigur á stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni í lokaumferðinni.
Veitt voru verðlaun í fjölda stigaflokka og hér á eftir fylgja úrslit í þeim.
Skákmeistari Reykjavíkur 2015
1. Jón Viktor Gunnarsson Skákmeistari Reykjavíkur 2015 7.5
2. Mikhael Jóhann Karlsson Silfur 7.0
3.-8. Stefán Kristjánsson Brons 6.5
Dagur Arngrímsson
Guðmundur Gíslason
Dagur Ragnarsson
Björn Þorfinnsson
Jón Trausti Harðarsson
Undir 2000
1. Þórir Benediktsson Gull 5.5
2. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir Silfur 5.5
3. Vignir Vatnar Stefánsson Brons 5.5
Undir 1800
1. Dagur Kjartansson Gull 5.5
2. Jón Úlfljótsson Silfur 5.0
3. Felix Steinþórsson Brons 5.0
Undir 1600
1. Hörður Jónasson Gull 5.0
2. Héðinn Briem Silfur 5.0
3. Heimir Páll Ragnarsson Brons 4.5
Undir 1400
1. Aron Þór Mai Gull 4.5
2. Robert Luu Silfur 4.5
3. Óskar Einarsson Brons 4.0
Undir 1200
1. Jón Þór Lemery Gull 3.5
2. Stefán Orri Davíðsson Silfur 3.5
3. Arnar Milutin Heiðarsson Brons 3.5
Stigalausir
1. Atli Mar Baldursson Gull 3.5
2. Alexander Ragnarsson Silfur 2.5
3. Axel Ingi Árnason Brons 2.0
Taflfélag Reykjavíkur óskar öllum vinningshöfum til hamingju með árangurinn og þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Skákþingi Reykjavíkur og Hraðskákmóti Reykjavíkur!